Hoppa yfir valmynd
6. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Íslendingar í Bretlandi hvattir til að tryggja rétt sinn til búsetu fyrir áramót

Mikilvægt er að íslenskir ríkisborgarar sem búa í Bretlandi og hyggjast dveljast þar áfram eftir 31. desember 2020 sæki um ,,settled“ eða ,,pre-settled status“ fyrir lok þessa árs. Umsóknarfrestur er formlega til 30. júní 2021 en fólk er eindregið hvatt til þess að sækja um fyrir áramótin til að tryggja réttindi sín í Bretlandi sem best.

Frá og með 1. janúar 2021 munu reglur Evrópska efnahagssvæðisins (EES) um frjálsa för fólks ekki lengur gilda um Bretland. Íslendingar sem flytja til Bretlands eftir það þurfa því að sækja um vegabréfsáritun og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi breskra stjórnvalda, til að fá að dvelja í landinu. Áfram verður heimilt að heimsækja Bretland án vegabréfsáritunar.

Námsmenn sem hófu nám í Bretlandi núna í haust en hafa ekki enn flust til Bretlands vegna heimsfaraldursins eru sérstaklega hvattir til að hafa þetta í huga þar sem ekki verður um neinar undanþágur að ræða fyrir þann hóp. Munu þeir þurfa að sækja um vegabréfsáritun samkvæmt nýja innflytjendakerfinu ef þeir flytja til Bretlands eftir áramót.

Eins og sakir standa mun Evrópska sjúkratryggingakortið ekki gilda lengur í Bretlandi frá og með 1. janúar 2021 og því þurfa þeir sem þangað koma eftir þann tíma, jafnvel einungis til millilendingar, að huga að viðeigandi ferðatryggingum.

Rétt er að undirstrika að þótt réttindi íslenskra ríkisborgara hafi verið tryggð með samningi verða allir ríkisborgarar EES- og ESB-ríkja að sækja um ,,settled“ eða ,,pre-settled status“ til að tryggja rétt sinn til áframhaldandi búsetu. Ef umsókn er ekki lögð inn eru réttindin ekki tryggð.

Allar nánari upplýsingar er að finna á vef breska innanríkisráðuneytisins

Samkvæmt breskum lögum er íslenskum stjórnvöldum eða sendiráði Íslands í London óheimilt að veita ráðgjöf í einstökum málum. Upplýsingar um aðila sem mega veita sérstaka ráðgjöf.

Ef þú ert í vafa um þína stöðu eða hvaða aðgerða er krafist má nálgast spurningalista og svör á vefsíðu breskra stjórnvalda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum