Hoppa yfir valmynd
7. október 2020 Dómsmálaráðuneytið

Fjármálaáætlun 2021-2025: Áhersluatriði dómsmálaráðuneytisins

Efling löggæslu, rafræn þjónusta og hagkvæmari rekstur viðbragðsaðila eru meðal helstu áherslumála dómsmálaráðuneytisins í fjármálaáætlun 2021-2025.

Fjárframlög til lögreglunnar eru rúmir 17 milljarðar króna á þessu ári og hafa verið aukin um rúma 6 milljarða króna á undanförnum fimm árum. Þessi auknu framlög eru m.a. vegna styrkingar landamærvörslu á grundvelli Schengen-samstarfsins og aukins álags vegna fjölgunar ferðamanna. Einnig hefur ríkisstjórnin lagt aukna fjármuni í önnur mikilvæg málefni á borð við meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu og aðgerðir gegn peningaþvætti og skipulagðri glæpastarfsemi. Haldið verður áfram á þeirri braut að efla löggæsluna á næstu árum. Af öðrum stórum verkefnum á vegum ráðuneytisins í tíð þessarar fjármálaáætlunar má nefna 13,6 milljarða króna hækkun framlags til að mæta stofnkostnaði við byggingu sameiginlegs húsnæðis fyrir alla viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu. Í nýju og sameiginlegu húsnæði verður unnt að samnýta margvíslega stoðþjónustu og einnig aðra þætti eins og æfingaaðstöðu, bílaaðstöðu, munageymslur og fleira.

Um er að ræða húsnæði fyrir ríkislögreglustjóra lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæsluna, Tollgæsluna, Neyðarlínuna ohf. (112), Slysavarnafélagið Landsbjörg og yfirstjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Frumathugun verkefnisins gerir ráð fyrir því að heildarstærð húsnæðisins geti orðið allt að 26 þúsund fermetrar. Þá er gert ráð fyrir tímabundnu 150 m.kr. framlagi til þriggja ára til eflingar björgunarskipaflota Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Rík áhersla verður lögð á innleiðingu rafrænna lausna t.d. hjá sýslumannsembættunum þar sem brýnt er að bæta þjónustu fjölskyldumála, við þinglýsingar og aðra afgreiðslu opinberra skjala. Unnið er að þessu verkefni í samstarfi ráðuneytisins og sýslumannsembættanna og eru væntingar um að ávinningur þessarar vinnu komi í ljós á næstu mánuðum.

Einnig hefur verið unnið að verkefni um rafræna réttarvörslugátt í ráðuneytinu síðustu misseri og er nú svo komið að fyrsta útgáfa lausnarinnar verður sett í loftið í lok þessa árs. Hér er um að ræða hluta af verkefninu Stafrænt Ísland sem er eitt af áhersluatriðum fjárlagafrumvarpsins.

Helstu þættir verkefnisins eru að gögn réttarvörslukerfisins verði aðgengilegt stafrænt, þvert á stofnanir, með öruggum hætti. Mikil áhersla er á að aðilar fái aðgang að öllum gögnum um leið og þau eru tiltæk og að lágmarka ferðir á milli stofnana, með því að bjóða örugga og staðlaða leið fyrir gögn,  upplýsingar og tilkynningar. Í fyrstu verður megináhersla á að gögn flæði á milli stofnana, en síðar meir er kerfinu ætla að veita yfirsýn og rekjanleika, auk þess sem aðgangur verður fyrir ytri aðila kerfisins til þess bæði að senda inn og móttaka gögn og fylgjast með gangi mála. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira