Hoppa yfir valmynd
7. október 2020 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Fjármálaáætlun 2021-2025: Aukin framlög til umhverfismála

Rauðasandur - myndHugi Ólafsson

Framlög úr ríkissjóði í þágu umhverfismála hafa aukist um 47% á verðlagi ársins 2020, á tímabilinu 2017 til og með árinu 2021. Gert er ráð fyrir að fjármunir til loftslagsmála muni hafa aukist um 13,9 milljarða frá 2017 til 2025, að meðtaldri þeirri aukningu sem birtist í fjármálaáætlun sem nú hefur verið lögð fyrir Alþingi. Þetta er hækkun um þrjá milljarða króna frá fyrri áætlun. Á sama tímabili fara 10,5 milljarðar króna aukalega til náttúruverndar og ríflega 10,6 milljarðar króna til viðbótar í ofanflóðavarnir og til eflingar vöktunar vegna náttúruvár. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir að verja 4,5 milljörðum króna í fráveituframkvæmdir sveitarfélaga og til eflingar hringrásarhagkerfinu.

Ísland hefur sett sér skýr markmið í loftslagsmálum, um samdrátt í losun, aukna bindingu og kolefnishlutleysi árið 2040. Á grundvelli aðgerða, sem kynntar voru í uppfærðri útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum á liðnu sumri, mun Ísland ná alþjóðlegum skuldbindingum sínum um 29% samdrátt og gott betur, eða 35%. Til viðbótar eru aðgerðir sem eru í mótun taldar geta skilað 5-11%, eða samtals 40-46% samdrætti. Auknu fjármagni til loftslagsmála er ætlað að hraða orkuskiptum í samgöngum og haftengdri starfsemi, stuðla að nýsköpun og aukinni kolefnisbindingu með meira umfangi uppgræðslu, endurheimt vistkerfa og nýskógrækt.

Fjármunum til fjölbreyttra verkefna í þágu náttúruverndar verður varið til áframhaldandi uppbyggingar innviða og landvörslu um land allt. Til þess að fylgja eftir áformum stjórnvalda um stofnun Hálendisþjóðgarðs verður tæpum 3,3 milljörðum króna varið til hans sérstaklega á árunum 2021-2025, t.d. með uppbyggingu innviða og rekstri.

Á grundvelli þess markmiðs stjórnvalda að tryggja fullnægjandi öryggi íbúa landsins gegn ofanflóðum verður tæplega 2,7 milljörðum varið árlega til varna gegn náttúruvá frá og með árinu 2021, eða ríflega 13 milljörðum króna á tímabili áætlunarinnar. Á árunum 2021-2025 verður í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins og í kjölfar óveðurs í desember 2019 ríflega 1,7 milljarði króna varið til eflingar vöktunar og styrkingar stjórnsýslu vegna náttúruvár. Um er að ræða kaup á vöktunar- og mælabúnaði, hugbúnaði og endurnýjun og uppbyggingu veðursjárkerfis auk tilheyrandi aukningar í rekstri. Á árinu 2020 var 540 milljónum króna varið til þessara verkefna.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og verður 2,8 milljörðum varið til þess á tímabilinu 2021-2025. Í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar verður um 1,7 milljörðum króna varið til grænnar nýsköpunar í þágu hringrásarhagkerfisins á sama tímabili. Markmiðið er að draga úr sóun, auka endurvinnslu og endurnýtingu og halda verðmætum eins lengi og hægt er í umferð.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira