Hoppa yfir valmynd
7. október 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Mikilvægi kynfræðslu í skólum

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fundaði í gær um málefni kynfræðslu í skólum og ræddi þar m.a. við Sólborgu Guðbrandsdóttur fyrirlesara og Sigríði Dögg Arnardóttir kynfræðing. Sólborg hefur haldið fyrirlestra um samskipti, mörk, kynlíf og fjölbreytileika í grunnskólum, félagsmiðstöðvum og framhaldsskólum undanfarin misseri og heldur úti Instagram-reikningnum „Fávitar“ þar sem m.a. vakin er athygli á algengi kynferðisofbeldis. Sigríður Dögg hefur sinnt kynfræðslu um land allt frá árinu 2010 auk þess að gefa út þrjár bækur og starfa við kynfræðslu í fjölmiðlum.

„Við áttum frábæran fund um þetta mikilvæga málefni sem brennur á mörgum – ekki síst unga fólkinu okkar sem kallar eftir öflugri fræðslu um kynferðismál. Þetta er brýnt samfélagslegt verkefni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Í vor ályktaði Alþingi um mikilvægi skipulagðra forvarna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og fól mennta- og menningarmálaráðherra m.a. að samþætta forvarnir kennslu og skólastarfi á öllum skólastigum og vinna að fleiri aðgerðum í samvinnu við félags- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Í aðgerðaáætlun sem fylgir þingsályktuninni er meðal annars fjallað um að efla aðgengi að aldursmiðuðu náms- og fræðsluefni, gera mat á áhrifum aðgengis barna og ungmenna að klámi og skipuleggja fræðsluátak um kynferðislega friðhelgi.

„Fyrsta skref okkar í kjölfar þessa fundar verður að vinna sem fyrst úttekt á framkvæmd kennslu í kynfræðslu í skólum. Starfshóp verður falið að koma að slíkri úttekt og skila tillögum til úrbóta. Við munum í kjölfarið leita leiða til þess efla kynfræðslu svo tryggt sé að hún sé ávallt í takt við þarfir nemenda. Sú vitundarvakning sem orðið hefur um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni er geysilega mikilvæg fyrir samfélagið, en það er okkar að tryggja að sú þekking og vitund skili sér markvisst inn í skólakerfið,“ segir ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira