Hoppa yfir valmynd
8. október 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Íslensk kvikmyndagerð á tímamótum

Menning og listir skipta mestu máli þegar hriktir í stoðum samfélaga. Þær setja líðandi stund í samhengi, veita skjól frá amstri hversdagsins og skapa samstöðu.
Gróskan í íslensku menningarlífi er með ólíkindum. Þar liggja líka mörg af okkar stærstu tækifærum til að byggja upp hugvitsdrifið og skapandi atvinnulíf. Óvíða eru þessi tækifæri meiri en í kvikmyndalist og til að ýta undir áframhaldandi vöxt hafa stjórnvöld nú lagt línurnar, með kvikmyndastefnu til næstu tíu ára. Þessi fyrsta heildstæða kvikmyndastefna var kynnt í vikunni, en hún byggist á tillögum verkefnahóps sem skipaður var fyrir ári. Í hópnum sátu fulltrúar listgreinarinnar, atvinnulífs og stjórnvalda og lagði hópurinn ríka áherslu á samráð við hagaðila í greininni. Niðurstaðan er metnaðarfull og raunsæ, og ég er sannfærð um að stefnan mun styðja vöxt kvikmyndagerðar sem listgreinar og alþjóðlega samkeppnishæfrar framleiðslugreinar.

Í stefnunni eru sett fram meginmarkmið til næstu tíu ára og aðgerðir tilgreindar með kostnaðaráætlunum. Um leið eru aðilar gerðir ábyrgir fyrir einstökum aðgerðum til að tryggja framkvæmd og eftirfylgni. Aðgerðirnar lúta annars vegar að eflingu kvikmyndamenningar og kvikmyndalistar og hins vegar að eflingu atvinnulífs í kringum kvikmyndastarfsemi sem er bæði alþjóðleg og sjálfbær.

Stefnan setur skýr markmið um eflingu fjölbreyttrar og metnaðarfullrar menntunar á sviði kvikmyndagerðar. Boðaðar eru markvissar aðgerðir til að efla mynd- og miðlalæsi barna og unglinga og styðja við skapandi hugsun. Slíkt hefur aldrei verið mikilvægara en nú, á tímum ofgnóttar af upplýsingum sem erfitt er að henda reiður á. Þá er í stefnunni kveðið á um vandað og metnaðarfullt kvikmyndanám á háskólastigi, nokkuð sem greinin hefur kallað eftir um langt skeið. Námið mun efla listrænt sjálfstæði íslenskrar kvikmyndagerðar, auka faglega umræðu og opna spennandi tækifæri til náms og starfa.

Loforð um bætt starfsumhverfi fyrir greinina kallar einnig á aðgerðir, m.a. breytingar á skattaumhverfi og uppfærslu á endurgreiðslukerfi. Þar á Ísland í harðri alþjóðlegri samkeppni, enda sjá margar þjóðir kosti þess að byggja upp kvikmyndaiðnað í sínu landi. Yfirstandandi alheimskreppa hefur síst dregið úr vilja þjóða til að laða til sín kvikmyndaframleiðendur og Ísland getur ekki leyft sér að sitja aðgerðalaust hjá. Kostir núverandi endurgreiðslukerfis eru margir, en með því að hækka endurgreiðsluhlutfallið kæmist Ísland í flokk þeirra eftirsóknarverðustu. Fyrir því mun ég beita mér, til hagsbóta fyrir greinina sjálfa og hagkerfið allt.

Rík sagnahefð Íslendinga hefur skilað okkur hundruðum kvikmynda, heimilda- og stuttmynda, sjónvarpsþátta og öðru fjölbreyttu efni á síðustu áratugum. Margar erlendar kvikmyndir og þáttaraðir hafa verið teknar hér og fjöldi ferðamanna heimsótt Ísland eingöngu vegna einstakrar náttúrufegurðar og menningar sem birtist í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Ávinningurinn af þessu er mikill. Aukin fjárfesting í kvikmyndagerð er því bæði viðskiptatækifæri fyrir þjóðarbúið og áburður í mótun menningar okkar og samfélagsins.

Á vormánuðum hækkuðu stjórnvöld fjárveitingar í Kvikmyndasjóð um 120 milljónir króna, til að tryggja áframhaldandi kvikmyndaframleiðslu á erfiðum tímum. Með nýju kvikmyndastefnunni verður bætt um betur, því í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 eru 550 milljónir króna eyrnamerktar eflingu sjóða til framleiðslu á fjölbreyttari kvikmyndaverkum, stuðningi við sjálfsprottin kvikmyndamenningarverkefni, betri kvikmyndamenntun o.s.frv.

Ég óska þjóðinni til hamingju með glæsilega kvikmyndastefnu. Hún er hvatning og innblástur öllum þeim sem vinna við kvikmyndagerð og samfélaginu sem nýtur afrakstursins.

-

Fyrst birt í Morgunblaðinu, 8. október 2020

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira