Hoppa yfir valmynd
8. október 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Styrkur til Barnahúss eflir starfsemi og styttir biðlista

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, og Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, undirrituðu samningin rafrænt í dag.  - mynd

Barnahús, sem sinnir málefnum barna sem sætt hafa kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi, hefur fengið styrk að upphæð 35 milljónir króna sem nýtist til styttingar biðlista ásamt því að efla starfsemina verulega. Styrkurinn er liður í aðgerðapakka stjórnvalda til þess að bregðast við afleiðingum Covid-19 faraldursins og er ein af tillögum aðgerðateymis gegn ofbeldi sem skipað var í maí af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra. Aðgerðateymið skipa Eygló Harðardóttir og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.

Styrkurinn gerir Barnahúsi kleift að fjölga ráðgjöfum og þannig stytta biðlista, en um fimm mánaða biðlisti er sem stendur eftir þjónustu Barnahúss. Fyrsta greiðsla vegna styrksins var veitt í sumar og hefur nýr ráðgjafi þegar hafið störf. Ásókn í þjónustu Barnahúss hefur aukist undanfarna mánuði, auk þess sem þjónustan hefur verið útvíkkuð til að sinna einnig börnum sem sætt hafa líkamlegu ofbeldi. Þá mun styrkurinn nýtast til að tryggja betur aðgengi að þjónustu óháð staðsetningu skjólstæðinga og starfsmanna, en Covid-19 faraldurinn hefur sýnt fram á nauðsyn þess.

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 um 15,6% miðað við árið á undan. Hins vegar fjölgar tilkynningum um 24,2% ef miðað er við fyrstu sex mánuði ársins 2018. Fjöldi tilkynninga á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 var 6.423 tilkynningar en voru 5.554 árið 2019. Líkt og árin á undan voru flestar tilkynningar vegna vanrækslu eða 43,4% tilkynninga. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis var 29,4%, vegna áhættuhegðunar barna 26,1% og þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var hlutfallið 1,1%. 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Erfiðleikar og áföll í samfélögum, líkt og Covid-19 faraldurinn, auka hættuna á ofbeldi gegn börnum og við höfum því miður séð aukningu í þá átt á undanförnum mánuðum. Ofbeldi gegn börnum hefur alltaf alvarlegar afleiðingar og það krefst þess að við tryggjum hraða málsmeðferð og fullnægjandi stuðning við þau börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi og fjölskyldur þeirra. Með því að styrkja við starfsemi Barnahúss eflum við þjónustu og stuðning við þau börn sem sætt hafa ofbeldi,  ásamt því að stytta biðina eftir hjálp sem er gríðarlega mikilvægt.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Ég hef lagt mikla áherslu á að efla aðgerðir gegn ofbeldi og ekki síst ofbeldi á heimilum. Vegna COVID 19 hefur álagið aukist á kerfin okkar og því brýnt að styrkja helstu stoðir sem geta brugðist við ofbeldisbrotum sem vaxa samhliða slíku álagi. Ef á að takast að rjúfa vítahring ofbeldis er mikilvægt að geta gripið inn í snemma þannig að börn verði fyrir sem minnstum varanlegum skaða. Styrkurinn nýtist til þess að hraða því að gripið sé til viðeigandi ráðstafana.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum