Hoppa yfir valmynd
9. október 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Bein útsending frá stórviðburði WHO í tilefni alþjóðageðheilbrigðisdagsins 10. október

Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri WHO - myndMynd: WHO

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin stendur fyrir stórviðburði á morgun þar sem þjóðarleiðtogar, sérfræðingar og heimsþekktar stjörnur tala til heimsbyggðarinnar um hvað unnt sé að gera til að bæta geðheilbrigði þjóða og stuðla að því að allir eigi kost á góðri geðheilbrigðisþjónustu sem á þurfa að halda. Viðburðurinn hefst kl. 14.00 að íslenskum tíma, fer fram á netinu í beinu streymi og er öllum opinn.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) í samvinnu við alþjóðlegu samtökin; United for Global Mental Health og World Federation for Mental Health, sem vinna að bættu geðheilbrigði á heimsvísu, hafa tekið höndum saman og hvetja til alþjóðlegrar samstöðu um aukna fjárfestingu í þágu geðheilbrigðis.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu er haft eftir forstjóra WHO að þörfin fyrir samstöðu um aukna áherslu á geðheilbrigðismál hafi líklega aldrei verið jafn knýjandi og nú á tímum COVID-19. „Við þurfum að beita okkur í þágu okkar eigin geðheilbrigðis, fjölskyldna okkar, vina og vinnufélaga og stuðla að því markvisst að stóraukin áhersla verði lögð á aukna fjárfestingu í geðheilbrigði á alþjóðavísu“ segir Dr Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO.

Áætlað er að um ein billjón manns í heiminum eigi við geðrænan vanda að etja. Geðræn vandamál stytta ævilíkur fólks og er talið meðalævilengd þeirra sem glíma við alvarlegar geðraskanir sé 10 – 20 árum skemmri en annarra. Sjálfsvíg er dánarorsök um 800.000 einstaklinga ár hvert og er önnur algengasta dánarorsök ungs fólks á aldrinum 15 – 29 ára.

Geðheilbrigðismál í tali og tónum

Fólk er hvatt til að fylgjast með viðburði WHO á morgun kl. 14 – 17 sem er aðgengilegur á vef stofnunarinnar og verður jafnframt streymt á öllum helstu samfélagsmiðlum. Þar verður sagt frá því hvernig WHO og samstarfsaðilar stofnunarinnar vinna að bættu geðheilbrigði um allan heim, þjóðarleiðtogar koma fram og skýra frá því hvers vegna þeir sjá ástæðu til að gera geðheilbrigðismál að forgangsverkefni. Einnig koma fram alþjóðlega þekktir listamenn sem hafa ákveðið að gerast talsmenn geðheilbrigðismála og segja frá ástæðum þess, og heimsþekktir tónlistarmenn flytja vinsæl lög fyrir áheyrendur.

Hægt er að fylgjast með viðburðinum á FacebookTwitterLinkedInYouTubeog TikTok og á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum