Hoppa yfir valmynd
9. október 2020

Ísland aðili að samevrópskum yfirlýsingum á vettvangi ÖSE

Húsnæði fastaráðs ÖSE í Vín. - myndStagiaireMGIMO / CC BY-SA (https://creativecommons.org/licenses/by-sa/4.0)

Síðustu daga hefur Ísland gerst aðili að nokkrum mikilvægum samevrópskum yfirlýsingum á vettvangi fastaráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og lýst stuðningi við aðild Kýpur að samningnum um opna lofthelgi á endurskoðunarráðstefnu samningsins.

Á fastaráðsfundi ÖSE í gær voru árásir á almenna borgara í Ngorno-Karabakh fordæmdar í yfirlýsingu ESB, sem Ísland gerðist aðili að. Þess var krafist, að Azerar og Armenar gerðu vopnahlé og færu að kröfum utanríkisráðherra Minsk-hópsins. Ísland gerðist einnig aðili að yfirlýsingu ESB til stuðnings fjölmiðlum í Hvíta-Rússlandi á fastaráðsfundinum, en þar eru stöðugar árásir stjórnvalda á skoðana- og málfrelsi fordæmdar. Skorað var á stjórnvöld að standa við ÖSE-skuldbindingar sínar um frelsi fjölmiðla og öryggi fjölmiðlafólks.

Í tilefni af 18. alþjóðadegi gegn dauðarefsingu, sem verður á morgun, var Ísland meðflytjandi að yfirlýsingu nokkra ríkja, þar sem m. a. er skorað á Bandaríkin og Hvíta-Rússland að afnema dauðarefsingu. Á fastaráðsfundinum gerðist Ísland einnig aðili að yfirlýsingu ESB um stöðu mála í Moldóvu, þar sem lýst er áhyggjum yfir stöðu mannréttinda, skoðana- og samkomufrelsis og fjölmiðlafrelsis í Transnistríu. Umræðan var að undirlagi Móldóvu, sem sakar yfirvöld í Tiraspol, höfuðstað aðskilnaðarhéraðsins, um að setja upp ólöglegar varðstöðvar. Þá gerðist Ísland aðili að yfirlýsingu ESB, þar sem m. a. því er fagnað, að vopnahlé stríðandi aðila í Úkraínu hefur haldist nokkuð vel frá því samið var um það í lok júlí sl.  

Fastafulltrúi Íslands lýsti stuðningi við aðild Kýpur að samningnum um opna lofthelgi á lokadegi endurskoðunarráðstefnu samningsins í dag. Var Ísland meðflytjandi í yfirlýsingu rúmlega  30 aðildarríkja um stuðning við aðild Kýpur. Tyrkland hefur beitt neitunarvaldi gegn aðildinni síðan 2002.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira