Hoppa yfir valmynd
12. október 2020 Innviðaráðuneytið

Uppbygging um allt land

Greinin birt í Bændablaðinu í byrjun október 2020

Síðastliðinn vetur var viðburðaríkur svo ekki verði meira sagt. Óveður geisuðu, þau verstu í manna minnum sem ullu gríðarlegu eignatjóni, sérstaklega í raforku- og fjarskiptakerfinu. Ríkisstjórnin brást skjótt við og lýsti yfir að fjárhagslegt tjón yrði bætt. Síðan kom heimsfaraldurinn og enn er verið að bæta í fjárfestingar með opinberri fjárfestingu til að verja og skapa störf. Fjölbreyttar fjárfestingar sjást í samgöngum, byggingum, nýsköpun og til styrkingar á innviðum tengdum fárviðrinu. Fjárfest er nú meira en nokkru sinni fyrr í samgöngum- og fjarskiptum og eru áætluð tæpir 58,3 ma.kr. á næsta ári og aukast um 10,5 ma.kr. frá gildandi fjárlögum eða um 22% að raunvirði. Sú aukning er að mestu leyti tilkomin vegna aukinna framlaga í gegnum fjárfestingar- og uppbyggingarátakið 2021-2023. Til að fá raunhæfan samanburð þarf að bera saman fjárlög heilla ára en hætt er við miklum skekkjum ef verið er að bera saman ársfjórðungsuppgjör mismunandi fjárlagaára.

Allt komið í gang

Vegaframkvæmdir eru ekki hilluvara úti í búð. Þær eru misumfangsmiklar og þarf ýmis undirbúningur búinn að eiga sér stað áður en grafan mætir á staðinn. Með fjárfestingarátakinu var hægt að flýta mörgum mikilvægum framkvæmdum sem voru fullhönnuð. Dæmi um slík verkefni sem voru klár, er breikkun og aðskilnaður aksturstefna Bæjarháls-Vesturlandsvegur á Suðurlandsvegi og breikkun og aðskilnaður Langitangi-Hafravatnsvegur í Mosfellsbæ. Önnur stór fjárfestingaverkefni til viðbótar við aðrar fjárveitingar á samgönguáætlun er að milljarður var settur til viðbótar í tengivegi og annað eins í viðhald á vegum vítt og breitt um landið. Þessar framkvæmdir eru allar komnar í gang. Hafnarframkvæmdir og nýjar tvöfaldar brýr í stað einbreiðra; Köldukvíslargil á Norðausturvegi, Gilsá á Völlum, Botnsá í Tálknafirði, Bjarnadalsá í Önundarfirði, Núpsvötn, Skjálfandafljót og Stóra-Laxá á Skeiða og Hrunamannavegi. Hringtorg á Flúðum, við Landvegamót og á Eyrabakkavegi. Fyrir utan þær brýr sem voru á samgönguáætlun.

Stærri vegaframkvæmdir sem krefjast lengri undirbúnings og voru settar af stað í fjárfestingaátakinu voru Reykjanesbraut, Hvassahraun-Krísuvíkurafleggjari, Suðurlandsvegur og Fossvellir-Norðlingavað. Undirbúningur er fjármagnaður á þessu ári og á næsta ári verða þær sýnilegar þegar grafan kemur. Þá er ótalin ný flugstöð á Akureyri sem er í hönnun og flughlað ásamt, akbraut og flughlaði á Egilsstöðum. Allar boðaðar fjárfestingar í samgöngu- og fjarskiptamálum sem lagðar voru fram í  samgönguáætlun og samþykkt síðastliðið vor hafa farið af stað eru í undirbúningi, vinnslu og mörgum þeirra er lokið. 

Fjarskiptaöryggi í óveðrum

Af fjarskiptaverkefnum er það að frétta að verið er að leggja lokahönd á að styrkja fjarskiptastöðvar víða um land með auknu varaafli og færanlegum varaaflstöðvum er fjölgað. Óveðrið sem gekk yfir landið afhjúpaði marga veikleika í rafmagns- og fjarskiptakerfum landsins og boðaði ríkisstjórnin fjárfestingaátak sem er að klárast. Tilgangurinn er að tryggja fjarskiptaöryggi í óveðrum. Við ætlum að tryggja sem best að ef slíkt fárviðri geisar aftur sé til staðar varaafl og nægt rafmagn. Skipting framkvæmda fer eftir stöðu varaaflstöðva sem kom í ljós að flestar sem viðgerðar þurftu við eru á Norðurlandi. Þar er búið að gera heilmiklar úrbætur sem og í öðrum landshlutum og verða verklok núna í október. Það er svo sannarlega verið að standa við stóru orðin. Framundan eru einhverjar mestu umbætur í samgöngum sem sést hafa. Um leið og við vinnum gegn samdrætti í hagkerfinu þá stórbætum við vegakerfið okkar og aukum umferðaröryggi sem hefur verið og er mitt hjartans mál. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum