Hoppa yfir valmynd
13. október 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

3 milljarða króna aukning til loftslagsmála

  - myndJohannes Jansson/norden.org

Gert er ráð fyrir 3 milljarða króna aukningu í fjárveitingum til loftslagsmála í fjármálaáætlun áranna 2021-2025, eða 600 milljónum króna á ári. Fjármunirnir skiptast á milli fjögurra meginþátta: orkuskipta, kolefnisbindingar, nýsköpunar og rannsókna, og styrkingar stjórnsýslu og losunarbókhalds.

Auka á kolefnisbindingu þar sem mikil áhersla er lögð á að aðgerðir vinni jafnframt að fjölþættum markmiðum s.s. líffræðilegri fjölbreytni, bættri vatnsmiðlun og auknum atvinnumöguleikum. Í ljósi þess er aukið við aðgerðir sem fela í sér endurheimt birkiskóga og votlendis auk annarrar skógræktar sem styður við byggðaþróun nú og til framtíðar.

Ráðist verður í rannsóknir sem leiða munu til úrbóta á losunarbókhaldi fyrir landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt (LULUCF). Auka þarf þekkingu á losun og bindingu í mismunandi vistkerfum og við mismunandi aðstæður til að losunarbókhald standist þær kröfur sem gerðar eru vegna sameiginlegra skuldbindinga okkar til 2030 í samræmi við Parísarsamninginn. Með frekari rannsóknum má undirbyggja enn betur þær aðgerðir sem ráðist er í hvað varðar landnotkun og meta árangur þeirra með meiri nákvæmni.

Loftslagssjóður fær 75 milljónir króna til viðbótar á næsta ári en fyrir hafði hann 100 milljónir króna til úthlutunar til verkefna sem stuðla að nýsköpun og fræðslu á sviði loftslagsmála. Loftslagssjóður er samkeppnissjóður sem komið var á fót árið 2019. Hann heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra en er í umsjón Rannís. Meðal verkefna sem sjóðurinn hefur styrkt eru loftslagsmælir Festu, sjónvarpsþáttaröðin Hvað getum við gert og Jarðgerðarfélagið sem vinnur að því markmiði að koma öllum matarúrgangi sem til fellur á landinu í jarðgerð.

Þá verður auknu fé varið í að hraða orkuskiptum í samgöngum og haftengdri starfsemi, á grundvelli aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

Ísland hefur sett sér skýr markmið í loftslagsmálum, um samdrátt í losun, aukna bindingu og kolefnishlutleysi árið 2040. Á grundvelli aðgerða, sem kynntar voru í uppfærðri útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum á liðnu sumri, mun Ísland ná alþjóðlegum skuldbindingum sínum um 29% samdrátt og gott betur, eða 35%. Til viðbótar eru aðgerðir sem eru í mótun taldar geta skilað 5-11%, eða samtals 40-46% samdrætti.

Gert er ráð fyrir að fjármunir til loftslagsmála muni hafa aukist um 13,9 milljarða frá 2017 til 2025, að meðtaldri þeirri aukningu sem birtist í fjármálaáætlun sem nú hefur verið lögð fyrir Alþingi. Ef litið er til málasviðs umhverfismála í heild þá hafa framlög úr ríkissjóði aukist um 47% á verðlagi ársins 2020, á tímabilinu 2017 til og með árinu 2021.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum