Hoppa yfir valmynd
13. október 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

3 milljarða kr. aukning til háskóla- og rannsóknastarfsemi

Framlög til háskóla og rannsóknastarfsemi aukast um 7% milli áranna 2020-21 samkvæmt nýkynntu fjárlagafrumvarpi ársins 2021. Þau eru áætluð 44 milljarðar kr. og aukast um tæpa 3 milljarða kr. milli ára, sé miðað við fast verðlag.

„Ríki sem hafa markað sér skýra stefnu um að fjárfesta í hugviti, rannsóknum og nýsköpun vegnar vel. Við höfum alla burði til að auka verðmætasköpun sem grundvallast á hugviti. Með því tryggjum við farsælan grunn að sterkara samfélagi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Áætluð framlög stjórnvalda til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina nemur tæpum 26 milljörðum kr. samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2021. Þar er um verulega aukningu að ræða en hækkunin nemur um 9,1 milljarði kr. sem svarar til 57% að raunvirði. Þetta er mikilvægur liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins en sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu með nýsköpun í þeirri aðgerðaáætlun. Af heildarframlögum til sviðsins renna 10,4 milljarðar kr. til málaflokka mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Öflugir samkeppnissjóðir eru forsenda fyrir árangri í rannsóknum og nýsköpun og lykilþáttur grósku í vistkerfi vísinda og nýsköpunar. Fyrirhugað er að auka framlag til samkeppnissjóða með það fyrir augum að fjölga tækifærum fyrir vísindamenn, hvetja til rannsókna og nýsköpunar og efla hagvöxt og alþjóðasamkeppnishæfni til langs tíma. Samkvæmt frumvarpinu hækka framlög Rannsóknasjóð og Innviðasjóð umtalsvert og munu þau nema 4,8 milljörðum kr. á næsta ári samkvæmt frumvarpinu. Hækkun þessi er liður í sérstöku þriggja ára átaksverkefni og samræmist aðgerð í Vísinda- og tæknistefnu 2020-2022.Ráðgert er að framlag til samstarfsáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun hækki um 1,8 milljarða kr. samkvæmt frumvarpinu. Aukin framlög til háskóla vegna fjölda brautskráninga nema 647 milljónum kr., en auk þess er ráðgert í frumvarpinu að 500 milljónir kr. renni sem beint framlag til kennslu í háskólum, til þess að bregðast við áhrifum COVID-19. Gert er ráð fyrir að ráðstöfun þess framlags verði lokið við 2. umræðu um fjárlögin.

Þá er fjárheimild málaflokksins aukin um 300 milljónir kr. vegna Nýsköpunarsjóðs námsmanna, sem lið í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar. Árvisst framlag í sjóðinn hefur verið um 50 milljónir kr. undanfarin ár en verður 355 milljónir kr. á næsta ári samkv. frumvarpinu. Tvær úthlutanir sjóðsins á þessu ári tryggðu 552 nemendum styrki til að vinna að nýsköpunarverkefnum sínum í sumar en 400 milljónum kr. var þá veitt aukalega til sjóðsins í gegnum fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar.  Verkefni um nýliðun kennara og starfsþróun þeirra halda áfram og fá aukið framlag samkvæmt frumvarpinu. Þá er gert ráð fyrir verulega auknum fjárveitingum vegna stuðnings við námsmenn, þar sem 2021 verður fyrsta heila starfsár nýs Menntasjóðs námsmanna.

Framlög til háskóla hækka um 159 milljónir kr. til að fjölga námsplássum í hjúkrunarfræði og koma á fót fagnámi fyrir sjúkraliða, sbr. áherslur ríkisstjórnarinnar um menntun heilbrigðisstarfsmanna. Þá verður settur á laggirnar nýr menntarannsóknasjóður sem leggja mun áherslu á hagnýtar rannsóknir á skóla- og frístundastarfi. Framlag til hans nemur 80 milljónum kr. samkvæmt frumvarpinu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira