Hoppa yfir valmynd
15. október 2020 Dómsmálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

SEGÐU FRÁ - Sameiginleg rafræn gátt vegna ofbeldis

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar við undirritun vegna verkefnisins.    - mynd

Sameiginleg rafræn gátt vegna ofbeldis fyrir þolendur, gerendur og aðstandendur var formlega tekin í notkun í dag.  Í henni felst að vef 112, 112.is, er breytt til að verða allsherjar upplýsingatorg um allt sem viðkemur ofbeldi, ásamt því að opnað verður á beint samtal við neyðarverði í netspjalli 112. Með sameiginlegri rafrænni gátt vegna ofbeldis er allt ferli sem miðar að aðstoð einfaldað, upplýsingar um hvað ofbeldi er gerðar aðgengilegar og boðið upp á úrræði til lausnar.

Neyðarnúmerið 112 gegnir lykilhlutverki á Íslandi til að koma til hjálpar hratt og örugglega til þeirra sem þess þurfa.  Á vefsíðunni 112.is og í neyðarnúmerinu 112 er tekið á móti slíkum beiðnum og þau úrræði sem henta best virkjuð samstundis.

Hin rafræna gátt 112 um ofbeldi er ein af megintillögum aðgerðateymis gegn ofbeldi sem Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra skipuðu til að stýra og samræma aðgerðir gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla.  Teyminu er stýrt af Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra og Eygló Harðardóttur.  Jafnframt hefur Neyðarlínunni verið falið að skipuleggja vitundarvakningu um ofbeldi í samfélaginu þar sem fólk er hvatt til að segja frá ofbeldi  og leita aðstoðar hjá 112.

Verkefninu var hrundið af stað fyrir 10 vikum og mun þróun gáttarinnar halda áfram. Bætt verður við greiningartóli sem hjálpar fólki að átta sig á hvort um ofbeldi sé að ræða og það leitt beint að viðeigandi úrræðum.  Unnið er að því að þýða síðuna á ensku og pólsku.

 „Það er mikil þörf á vitundarvakningu um ofbeldi í samfélaginu og sameiginleg rafræn gátt getur gegnt lykilhlutverki í því að koma bæði þolendum, gerendum og aðstandendum til hjálpar. Nýr vefur auðveldar aðilum að hafa samband vegna ofbeldis og við hvetjum aðila að hafa samband ef minnsti grunur er á ofbeldi," segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.

Það á ekki nokkur aðili að þurfa að þola ofbeldi, hvort sem um er að ræða líkamlegt eða andlegt. Með opnun þessarar rafrænu gáttar stígum við stórt skref í þá átt að vekja athygli á því ofbeldi sem fjölmargir verða fyrir, eitthvað sem við verðum að takast á við og reyna að uppræta með öllum mögulegum ráðum,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Við höfum þróað sérstakt rafrænt netspjall þannig að þeir sem þurfa aðstoð vegna ofbeldis, slysa, sjúkdóma eða annars geta leitað upplýsinga og aðstoðar hjá 112, jafnvel þó þeir geti eða vilja ekki nota síma. Þá munum við einnig þróa áfram döff-app 112  þannig að aðstoð 112 verði sem aðgengilegust öllum, hvar sem er og hvenær sem er,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum