Hoppa yfir valmynd
20. október 2020 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þróa próf sem styttir greiningu á sýklalyfjaónæmum bakteríum niður í klukkustund

Sýklalyfjaónæmis og súnusjóður úthlutar í fyrsta sinn

Tvö verkefni tengd grunnrannsóknum í sýklalyfjaónæmi fá hæstu styrkina úr Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóði sem nú úthlutar í fyrsta sinn. Tilgangur sjóðsins er að fjármagna verkefni undir formerkjum „Einnar heilsu“ (e. One Health) í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Verkefnin snúa annars vegar að framlínuforvörnum í heilsu manna og dýra með DNA hraðgreiningar á sýklalyfjaónæmum bakteríum og hins vegar að upprunateikningu á sýklalyfjaónæmum E.coli stofnum með raðgreiningum á erfðamengi þeirra. Sjóðnum bárust 14 umsóknir og alls hljóta níu verkefni og rannsóknir styrki fyrir alls 32.1 milljónir króna í þessari fyrstu úthlutun sjóðsins.

Sjóðurinn var settur á laggirnar fyrr í vetur í samræmi við aðgerðaráætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna og sameiginlegt átak sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra um að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóður styrkir, meðal annars, grunnrannsóknir í sýklalyfjaónæmi, auk þess að greiða fyrir skimun og vöktun á sýklalyfjaónæmi í dýrum, matvælum, umhverfi og fóðri.

Þróa hraðvirkari greiningapróf fyrir sýklalyfjaónæmar bakteríur

Verkefni Landspítalans, Framlínuforvarnir í heilsu manna og dýra - DNA hraðgreiningar á sýklalyfjaónæmum bakteríum, hlaut rúmlega níu milljónir í styrk. Verkefnið felst í þróun á nýrri aðferðarfræði (LAMP) fyrir DNA prófanir og er markmið verkefnisins að þróa hagkvæmari, einfaldari og hraðvirkari DNA greiningapróf með Isothermal tækni fyrir sýklalyfjaónæmar bakteríur sem gefa áreiðanlegar niðurstöður á innan við klukkustund. Þetta mun hafa talsverð áhrif, en með núverandi tækni, þar sem notast er við bakteríuræktanir til greininga, tekur að jafnaði tvo til þrjá daga að fá niðurstöður úr sýnatökum. 

Hægt verður að nota tæknina m.a. fyrir matvælaeftirlit og bakteríugreiningar á sjúklingum. Tilgangurinn er að efla forvarnir gegn ónæmum bakteríum með betri greiningum og minnka líkur á smitum.

Greining á fjölónæmum bakteríum er tímafrek og krefst rannsókna á sérhæfðum rannsóknastofum. Markmið okkar er að þróa aðferð til að greina nær-alónæmar bakteríur í fólki, fóðri, matvælum og dýrum með aðferð sem hægt er að framkvæma á einfaldan hátt á staðnum. Styrkurinn frá Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóði flýtir fyrir og auðveldar okkur að ná þessu markmiði, segir Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans sem fer fyrir verkefninu.

Á meðal umsókna sem hlutu styrki voru tvær skimanir á vegum Matvælastofnunar. MAST hlaut styrki meðal annars til að hefja skimanir fyrir E.Coli og sýklalyfjaónæmum bakteríum í hráu grænmeti og kanna tilvist og tíðni þeirra í grænmeti sem er borðað hrátt. Þá mun stofnunin halda áfram skimun frá árinunum 2018-2019 á E.Coli í lömbum við slátrun. E. colibakteríur geta borið gen sem hafa þann eiginleika að mynda ónæmi gegn mikilvægum sýklalyfjum og eru líklegri til að vera fjölónæmar

 


Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira