Hoppa yfir valmynd
21. október 2020 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á barnalögum endurspegla fjölbreytileika

Dómsmálaráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi um breytingar á barnalögum sem snúa að því að í barnalög verði bætt nýjum ákvæðum sem mæla fyrir um foreldrastöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu.

Breytingarnar miða að því að tryggja réttindi foreldra sem breytt hafa skráningu kyns og gera þá jafnsetta öðrum foreldrum. Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á núgildandi ákvæðum barnalaga sem snúa að því að kona sem samþykkir að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða sambúðarmaka verði talin móðir barns en ekki foreldri eins og núgildandi ákvæði laganna mælir fyrir um.

Frumvarpið gerir auk þess ráð fyrir breytingum á tilteknum ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um almannatryggingar og lögum um kynrænt sjálfræði.

Frumvarpið var unnið í samstarfi við forsætisráðuneytið og starfshóp sem var skipaður samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Frumvarpið tengist þeim frumvörpum sem forsætisráðherra hefur þegar mælt fyrir um breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði ásamt breytingum á ýmsum lögum vegna breytinga á lögum um kynrænt sjálfræði.

„Með þessum breytingum erum við að tryggja að lagaumhverfið endurspegli betur raunveruleikann okkar og þann fjölbreytileika sem við höfum í samfélaginu. Á sama tíma og við fögnum fjölbreytileikanum getum við ekki haft lög sem ekki viðurkenna foreldrastöðu trans fólks og mismuna samkynja hjónum eftir kyni. Einnig er mikilvægt að huga að rétti barns til að vita uppruna sinn og fá upplýsingar um foreldra sína,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra í framsöguræðu sinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira