Hoppa yfir valmynd
28. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Þrír norrænir fundir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í dag

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ræddi viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum, málefni þróunarsamvinnu og öryggis- og varnarmál á þremur norrænum ráðherrafundum sem fram fóru í dag í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Skýrsla Björns Bjarnasonar um norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála var áberandi umræðuefni á fundunum en jafnframt bar endurfjármögnun Norræna þróunarsjóðsins og loftslagsmál á góma.  

Á sameiginlegum utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna með forsætisnefnd Norðurlandaráðs var meðal annars rætt um samstarf ríkjanna í öryggismálum, málefnum norðurslóða, á sviði afvopnunar og mannréttinda en einnig varnir gegn kórónuveirunni, svo fátt eitt sé nefnt. Vitnuðu margir þátttakenda til skýrslu sem Björn Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, gerði fyrir norrænu utanríkisráðherrana að tillögu íslenska utanríkisráðherrans um áskoranir og tækifæri sem Norðurlöndin standa frammi fyrir í utanríkis- og öryggismálum. Var hún annars vegar talin til marks um náið samband Norðurlandanna og hins vegar væri hún ákveðinn vegvísir til framtíðar. 
 
„Heimsfaraldurinn hefur sannarlega orðið til þess að samskipti og samráð Norðurlandanna hafa vaxið til muna og það er vel,“ segir Guðlaugur Þór. „Við eigum gott samstarf og samráð á öllum stigum og deilum í megindráttum sýn á heimsmálin og það styrkir okkur svo, hvert fyrir sig, sem og heildina, að geta talað einu máli á vettvangi alþjóðastofnana. Það gerum við einmitt í mjög ríkum mæli.“ 
 
Þá tók Guðlaugur Þór þátt í fjarfundi norrænna þróunarsamvinnuráðherra þar sem aukinn ójöfnuður vegna COVID-19 og samstarf Norðurlandanna um stuðning við betri og grænni uppbyggingu þróunarlanda eftir heimsfaraldurinn voru meðal annars til umræðu. Ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi þess að byggja upp getu heilbrigðiskerfa til að takast á við heimsfaraldra, þróun í átt að grænum og loftslagsaðlöguðum hagkerfum, og að jafnrétti og réttindi kvenna og stúlkna verði áfram tryggð. Ísland hefur leitt sérstakan samstarfshóp Norðurlandanna um jafnrétti. 

„Það er áhyggjuefni að kynbundið ofbeldi, sérstaklega heimilisofbeldi, hefur aukist mikið í heimsfaraldrinum. Við höfum þess vegna m.a. stutt Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson. 

Ráðherrarnir lýstu yfir ánægju með samvinnuna og tiltóku að endurfjármögnun Norræna þróunarsjóðsins (NDF) væri mikilvæg fyrir Norðurlöndin til að ná markmiðum sínum að styðja þróunarríki til að ná loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmiðunum. Endurfjármögnunin hljóðar upp á 350 milljónir evra til næstu tíu ára og verður hlutur Íslands 1,5% eða um 870 milljónir króna, sem greiðist árin 2022-2031. 

Síðdegis átti Guðlaugur Þór svo fjarfund með öðrum varnarmálaráðherrum Norðurlanda ásamt forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Þar var skýrsla Björns Bjarnasonar einnig til umræðu, svo og áhersluatriðin í formennsku Dana í NORDEFCO, varnarmálasamstarfi norrænu ríkjanna. Þá voru netöryggismál og svonefndar fjölþáttaógnir ofarlega á baugi.  

„Það kemur æ betur í ljós hversu mikilvægt innlegg í öryggismálasamstarf Norðurlanda skýrsla Björns Bjarnasonar er. Hún dregur fram þær miklu öryggisáskoranir sem blasa við okkur vegna fjölþáttaógna, og þar með talið netógna, falsfrétta og misvísandi upplýsinga, sem hafa aukist mikið undanfarin ár samhliða örri tækniþróun, hraðari tengingum og sjálfvirknivæðingu. Þetta kallar á bætta ástandsvitund, aukið viðnámsþol og viðbragðsgetu. Í því samhengi skiptir norrænt samstarf gríðarmiklu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
3. Heilsa og vellíðan
5. Jafnrétti kynjanna
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum