Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ný reglugerð um skólastarf tekur gildi 3. nóvember: Skólar áfram opnir

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmarkanir á skólastarfi hefur verið gefin út og tekur gildi þriðjudaginn 3. nóvember nk. Reglugerðin gildir um allt skólastarf á landinu, en nær einnig til frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþrótta- og tómstundastarfs barna og ungmenna.

Víðtækt samráð var haft við skólasamfélagið við undirbúning reglugerðarinnar, meðal annars við fulltrúa allra skólastiga, Kennarasambands Íslands, skólastjórnendur og Samband íslenskra sveitarfélaga.Helstu breytingar sem reglugerðin felur í sér eru eftirfarandi:

Leikskólar:

Í leikskólum gildir tveggja metra reglan um kennara og starfsfólk, en þar sem lágmarksfjarlægð verður ekki komið við er starfsfólki skylt að bera andlitsgrímur. Hámarksfjöldi fullorðinna í hverju rými eru 10.

Nálægðartakmörk gilda ekki um börn á leikskólaaldri, en fjöldi barna í hverju sóttvarnarými skal að hámarki vera 50.

Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til. Gestir sem koma í leikskólabyggingar, svo sem starfsfólk skólaþjónustu eða vegna vöruflutninga, skulu gæta að 2 metra nálægðartakmörkun og bera andlitsgrímur.

Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leikskólaaldri er óheimilt á meðan reglugerðin er í gildi.

Grunnskólar og frístundastarf á grunnskólastigi:

Tveggja metra reglan gildir um kennara og starfsfólk í grunnskólum, en nota skal andlitsgrímu þar sem ekki er hægt að tryggja lágmarksfjarlægð. Hámarkfjöldi fullorðinna í hverju sóttvarnarými í grunnskólum er 10, en starfsfólki er heimilt að fara milli hópa til að sinna kennslu og veita aðra nauðsynlega þjónustu.

Nemendur í 1.-4. bekk eru undanþegnir tveggja metra reglu og grímuskyldu. Hámarksfjöldi þeirra í hverju sóttvarnarými eru 50.

Nemendur í 5.-10. bekk þurfa að fylgja tveggja metra reglu, en ef víkja þarf frá henni ber nemendum að nota grímu. Að hámarki mega 25 nemendur í 5. – 10. bekk vera í hverju sóttvarnarými.

Í sameiginlegum rýmum skólabygginga, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að nemendur í 5.–10. bekk og starfsfólk noti andlitsgrímu. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nálægðartakmörkun, svo sem í verklegri kennslu og listkennslu, skulu kennarar og nemendur í 5.–10. bekk nota grímur.

Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til. Aðrir sem þurfa að koma í skólabyggingar, svo sem starfsfólk skólaþjónustu, kennarar tónlistarskóla eða starfsfólk í vöruflutningum, skulu gæta að 2 metra nálægðartakmörkun og bera andlitsgrímur.

Halda skal þeirri hópaskiptingu nemenda sem er í grunnskólastarfi á frístundaheimilum þannig að þar verði ekki blöndun á milli nemendahópa.

Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna á grunnskólaaldri, þ.m.t. starf félagsmiðstöðva, er óheimilt á meðan reglugerðin er í gildi.

Tónlistarskólar:

Tónlistarskólum er heimilt að sinna einstaklingskennslu með 2 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks og nemenda. Að hámarki mega 10 einstaklingar vera í sama rými, en tryggja þarf að blöndun hópa verði ekki önnur en í almennu skólastarfi. Andlitsgrímur skulu notaðar í öllu starfi með nemendum þar sem því verður við komið.

Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma í tónlistarskóla nema brýna nauðsyn beri til. Gestir sem þurfa að koma í skólabyggingar, svo sem starfsfólk skólaþjónustu sveitarfélaga eða vegna vöruflutninga, skulu gæta að 2 metra nálægðartakmörkun og bera andlitsgrímur.

Framhaldsskólar og menntastofnanir sem kenna á framhaldsskólastigi:

Skólastarf er heimilt ef nemendur og starfsfólk geta haft minnst 2 metra fjarlægð sín á milli og fjöldi nemenda og starfsmanna fer ekki yfir 10 í hverju rými. Í áföngum á fyrsta námsári mega allt að 25 einstaklingar deila sama rými, svo fremi sem tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga er tryggð. Blöndun nemenda milli hópa er ekki heimil í kennslu en starfsfólki er heimilt að fara á milli hópa.

Í sameiginlegum rýmum, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að notast sé við andlitsgrímu.

Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nálægðartakmörkun, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu, klínísku námi og kennslu nemenda á starfsbrautum, skulu nemendur, sé þess kostur, og kennarar nota andlitsgrímu.

Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu eða náms skulu ekki fara fram í skólabyggingum. Takmarka skal gestakomur í skólabyggingar.

Heimilt er að halda þýðingarmikil próf fyrir allt að 30 einstaklinga í vel loftræstum rýmum, að uppfylltri 2 metra nálægðartakmörkun og ýtrustu sóttvarnaráðstöfunum.

Háskólar:

Skólastarf er heimilt ef nemendur og starfsfólk geta haft minnst 2 metra fjarlægð sín á milli og hámarksfjöldi nemenda í hverri kennslustofu fer ekki yfir 10. Blöndun nemenda milli hópa er ekki heimil í kennslu en starfsfólki og kennurum er heimilt að fara á milli hópa.

Í sameiginlegum rýmum, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að notaðar séu andlitsgrímur. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nálægðartakmörkun, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu og klínísku námi, er skólastarf heimilt með því skilyrði að nemendur og kennarar noti andlitsgrímu.

Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu eða náms skulu ekki fara fram í skólabyggingum. Takmarka skal gestakomur í skólabyggingar.

Heimilt er að halda samkeppnispróf, þýðingarmikil lokapróf og staðbundnar námslotur fyrir allt að 30 einstaklinga í vel loftræstum rýmum, að uppfylltri 2 metra nálægðartakmörkun og sóttvörnum í hvívetna.


Reglugerðina má nálgast hér. 
 Sjá einnig nánari upplýsingar um takmarkanir á samkomum á vef heilbrigðisráðuneytis.   • Ný reglugerð um skólastarf tekur gildi 3. nóvember: Skólar áfram opnir - mynd úr myndasafni númer 1
  • Ný reglugerð um skólastarf tekur gildi 3. nóvember: Skólar áfram opnir - mynd úr myndasafni númer 2
  • Ný reglugerð um skólastarf tekur gildi 3. nóvember: Skólar áfram opnir - mynd úr myndasafni númer 3
  • Ný reglugerð um skólastarf tekur gildi 3. nóvember: Skólar áfram opnir - mynd úr myndasafni númer 4
  • Ný reglugerð um skólastarf tekur gildi 3. nóvember: Skólar áfram opnir - mynd úr myndasafni númer 5
  • Ný reglugerð um skólastarf tekur gildi 3. nóvember: Skólar áfram opnir - mynd úr myndasafni númer 6

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum