Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Hlutabótaleið framlengd um allt að sex mánuði til viðbótar

 Vinna er hafin við framlengingu hlutabótaleiðar. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur sett af stað vinnu við að framlengja rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda, hlutabótaleið, um allt að sex mánuði til viðbótar. Áður var hlutabótaleið í gildi til 31. desember 2020 en miðað er við að hún verði virk til 1. júní 2021. Er framlenging hlutabótaleiðar hluti af stærri pakka ríkisstjórnarinnar í vinnumarkaðs- og efnahagsaðgerðum sem ætlað er að mæta efnahagslegum áhrifum Covid-19 heimsfaraldursins. 

Hlutabótaleið var kynnt í fyrsta aðgerðapakka stjórnvalda og er markmiðið með henni einfalt; að stuðla að því að vinnuveitendur haldi virku ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt þrátt fyrir samdrátt í starfsemi. Hlutabótaleiðin er það úrræði sem gagnast hefur atvinnulífinu hvað mest, sérstaklega ferðaþjónustunni á erfiðum tímum. Mikil verðmæti eru fólgin í því fyrir samfélagið allt að sem flestir haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda og hér verði kröftug viðspyrna þegar faraldurinn hefur gengið yfir. Til þessa hafa um 36.000 starfsmenn hjá um það bil 6.600 fyrirtækjum fengið greidda samtals 19,8 milljarða króna í hlutabætur.

Þá hefur verið ákveðið að rýmka skilyrði til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði þannig að úrræðið grípi líka þá sem misstu vinnu í upphafi Covid-19 faraldursins en voru með styttri uppsagnarfrest en þrjá mánuði.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það óvissuástand sem við vorum að vona að myndi aðeins vara í nokkra mánuði í vor mun vara lengur en við gerðum ráð fyrir í fyrstu. Atvinnuleysi hefur aukist mikið og því gríðarlega mikilvægt að við grípum inn í og hjálpum fólki og fjölskyldum að komast í gegnum þessar krefjandi aðstæður með markvissum aðgerðum. Hlutabótaleið hefur reynst afskaplega mikilvæg leið til þess að halda virku ráðningarsambandi milli vinnuveitenda og starfsfólks en slíkt er gríðarlega mikilvægt. Við erum ekki einungis að boða framlengingu hlutabótaleiðarinnar, við erum líka að skoða hvaða breytingar við getum gert á henni þannig að hún tali betur við önnur úrræði stjórnvalda.”

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum