Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Ráðherrar úthluta styrkjum til aðgerða gegn ofbeldi

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hafa úthlutað styrkjum til 17 verkefna sem lið í því að auka þjónustu við viðkvæma hópa sem verða fyrir áhrifum vegna Covid-19 faraldursins. Styrkirnir er afurð vinnu aðgerðateymis skipuðu af ráðherrunum í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla.

Þeir aðilar sem hljóta styrki eru: Aflið Akureyri, Barnaheill, Bjarmahlíð, Barnavernd Reykjavíkur, Geðhjálp, Hjálpræðisherinn, Landspítali, Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur, Menntavísindastofnun, Reykjavíkurborg, Rótin, Samfés, Samhjálp, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtökin Múrar brotnir, Soroptimistafélag Suðurlands og Tengja fjölmenningarsamtök.

Þau félagasamtök, sveitarfélög og stofnanir sem hljóta styrkina veita mikilvæga þjónustu til ýmissa viðkvæmra hópa í samfélaginu og eru styrkirnir hluti af markvissum aðgerðum stjórnvalda til vinna gegn auknum líkum á ofbeldi  í kjölfar Covid-19 faraldursins.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Rannsóknir sýna okkur að í þeim aðstæðum sem nú eru uppi sökum Covid-19 faraldursins eykst hættan á ofbeldi. Faraldurinn hefur raskað lífi okkar allra undanfarna mánuði og nauðsynlegar sóttvarnaraðgerðir geta, þrátt fyrir mikilvægi sitt, raskað stuðningskerfi margra viðkvæmra hópa. Þá getur aukið álag og streita skapað frekari hættu fyrir viðkvæma hópa samfélagsins að verða fyrir ofbeldi. Þeir aðilar sem hljóta þessa styrki gegna mikilvægu hlutverki í þjónustu við viðkvæma hópa og markmiðið með styrkveitingunni er að gera þá enn betur í stakk búin til að veita skjólstæðingum sínum stuðning og ráðgjöf á þessum erfiðu tímum.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Ánægjulegt er að sjá hve fjölbreyttur hópur vinnur að því að styðja og styrkja þá sem viðkvæmastir eru þegar harðnar á dalnum. Styrkveitingin sýnir glöggt hversu margir einstaklingar leggja sitt af mörkum til að vinna samfélaginu gagn. Stuðningur við allt þetta mikilvæga starf er hluti af markvissum aðgerðum og vitundarvakningu gegn ofbeldi sem við höfum gripið til undanfarna mánuði og er nauðsynlegt til að mæta því tímabundna mótlæti sem fylgir Covid-19 faraldrinum.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum