Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2020 Utanríkisráðuneytið

Þrír fundir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um varnar- og öryggismálasamstarf

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, Antti Kaikkonen, varnarmálaráðherra Finnlands, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, og Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, á fundinum í dag - myndNORDEFCO

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sat í dag fund varnarmálaráðherra NORDEFCO, varnarmálaráðherrafund Norðurlandanna og Eystrasaltsríkja (NB8), og varnarmálaráðherrafund Norðurhópsins. Vegna heimsfaraldursins var um fjarfundi að ræða.

Á fundi NORDEFCO, norræna varnarsamstarfsins, ræddu varnarmálaráðherrar Norðurlanda um áframhaldandi samvinnu á sviði öryggis- og varnarmála, einkum á norðurslóðum, en auk þess voru ræddar áherslur í formennskutíð Dana. Stefnuyfirlýsing Norðurlandanna í varnarmálasamstarfi, NORDEFCO Vision 2025, um samvinnu á tímum friðar, hættu og óvissu, var jafnframt til umræðu. Áhersla var lögð á samráðsvettvang samstarfsins um hættuástand sem komið var á fót árið 2019. Vettvangnum er ætlað er að bæta upplýsingaskipti og samráð ef hættuástand skapast. Þessi vettvangur hefur meðal annars verið nýttur á yfirstandandi ári til þess að ræða viðbrögð við heimsfaraldrinum, áhrif hans og afleiðingar.

„Frá stofnun NORDEFCO-samstarfsins árið 2009 hefur öryggisumhverfi okkar breyst verulega og samvinna hefur aldrei verið mikilvægari. Heimsfaraldur kórónuveirunnar sýnir glögglega hvernig heilbrigðisvá getur þróast út í að verða að ógn við öryggi sem undirstrikar enn frekar mikilvægi þess að við snúum bökum saman,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra eftir fundinn í dag.

Öryggis- og varnarsamstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna var efst á baugi á fundi ríkjanna í dag en auk þess var farið yfir formennskutíð Lettlands. Einnig var rætt um þjálfunarverkefni Atlantshafsbandalagsins í Írak þar sem ríkin leggja sitt af mörkum en Danir taka við forystu þess verkefnis í lok árs.

Staða öryggismála og ástandið í Hvíta-Rússlandi var á meðal þess sem rætt var á fundi  varnarmálaráðherra Norðurhópsins í dag. Auk Norðurlanda og Eystrasaltsríkja eiga Holland, Pólland og Þýskaland aðild að hópnum. Varnir lykilinnviða, fjölþáttaógnir, efnahagstengd öryggismál og netógnir voru einnig á dagskrá. Norðurhópurinn fundar nokkrum sinnum á ári um sameiginlega hagsmuni í varnar- og öryggismálum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira