Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2020 Matvælaráðuneytið

Endurnýjaður samningur við Færeyjar um fiskveiðimál

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra og Jacob Vestergaard sjávarútvegsráðherra Færeyja náðu fyrr í vikunni samkomulagi um fiskveiðiheimildir Færeyinga innan íslenskrar lögsögu fyrir næsta ár og um gagnkvæman aðgang að veiðum í lögsögu landanna fyrir norsk-íslenska síld og kolmunna.

Heimildir Færeyinga til veiða á botnfiski verða þær sömu og í ár eða 5,600 tonn og hámark þess sem veiða má af þorski verður óbreytt eða 2,400 tonn.  Vegna bágs ástands keilustofnsins voru ráðherrarnir sammála um að keiluafli Færeyinga yrði minni en verið hefur.  Heimildir þeirra til veiða á keilu lækka því úr 650 tonnum í 400 tonn.

Samið var um að Færeyingar geti veitt loðnu við Ísland sem nemur 5% af ákvörðuðum heildarafla á vertíðinni 2020/21 en þó að hámarki 30,000 tonn. Áfram gilda sömu takmarkanir og verið hafa á heimildum þeirra til að verka loðnu um borð eða landa í Færeyjum til manneldis.

Samkomulagið felur í sér gagnkvæman aðgang til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld með sama hætti og verið hefur undanfarin 2 ár.  Þannig geta allt að 15 íslensk skip stundað síld- og kolmunnaveiðar í lögsögu Færeyja samtímis. Þá er íslenskum skipum heimilt að veiða allt að 1,300 tonn af makríl af aflaheimildum Færeyja sem meðafla við veiðarnar.

Samningurinn er mikilvægur fyrir báðar þjóðirnar. Aðgengi að lögsögu Færeyja til kolmunnaveiða er mikilvægt fyrir íslensk skip þar sem lítið hefur verið af kolmunna í lögsögu Íslands á undanförnum árum.  Fyrir Færeyjar er samningurinn einnig mjög mikilvægur, bæði vegna þeirra veiðiheimilda sem þeir fá í bolfiski og loðnu við Ísland en einnig vegna aukinna veiða þeirra á norsk-íslensku síldinni í íslenskri lögsögu á undanförnum árum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira