Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Undanþága veitt vegna urðunar í Skarðsmóum

Umhverfis- og auðlindráðherra hefur veitt undanþágu frá  lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrir aflagðan urðunarstað við Skarðsmóa í Skagafirði vegna urðunar á sauðfé frá búum í Tröllaskagahólfi vegna riðuveiki. Er það mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að hröð förgun dýranna varði almannaheill og mæti því skilyrðum um undanþágu.

Urðun riðusmitaðs úrgangs fellur undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Óheimilt er að gefa út starfsleyfi til framkvæmdarinnar fyrr en mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir, eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Lög um mat á umhverfisáhrifum heimila hins vegar ráðherra í sérstökum undantekningartilvikum og að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, að undanþiggja tiltekna framkvæmd, mati á umhverfisáhrifum varði framkvæmdin almannaheill og/eða öryggi landsins. Í slíkum tilvikum skal ráðherra kveða á um hvaða gögnum skuli safnað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og aðgang almennings að þeim og kynna framkvæmdaaðila, leyfisveitendum og almenningi ástæður undanþágunnar.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur aflað umsagnar Skipulagsstofnunar og tekið ákvörðun um að undanþiggja framkvæmdina lögum um mat á umhverfisáhrifum enda eru uppfyllt skilyrði laga um almannaheill.

Aðgerðir í samræmi við lög um dýrasjúkdóma

Aðgerðir til að sporna gegn riðuveiki fela í sér aðgerðir í þágu almannahagsmuna og nauðsynlegt er að grípa til skjótra aðgerða. Aðgerðirnar eiga sér stoð í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Þá liggur fyrir að kannaðir hafi verið aðrir möguleikar til að farga hinum sóttmengaða úrgangi sem ekki næst að brenna og koma ekki aðrir möguleikar til greina en urðun.

Að mati ráðuneytisins getur útbreiðsla riðuveiki haft alvarlegar félagslegar og hagrænar afleiðingar í sveitum landsins. Er það því mat ráðuneytisins að skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum séu uppfyllt. Um sé að ræða framkvæmd sem varðar almannaheill og telja verður að markmiði framkvæmdarinnar verði ekki náð verði hún háð mati á umhverfisáhrifum, enda mikilvægt að hefta útbreiðslu veikinnar sem fyrst.

Umhverfisáhrif urðunar í Skarðsmóum

Notkun urðunarstaðarins við Skarðsmóa í Skagafirði var hætt árið 2012 og fyrir liggur lokunaráætlun frá þeim tíma. Þar er m.a. að finna lýsingu á staðháttum og hvernig staðið var að vöktun á meðan urðun fór fram. Þá er þar að finna niðurstöður vöktunar og mælinga á rekstrartíma sem og áætlun um vöktun og frágang eftir lokun. Að mati Skipulagsstofnunar eru umhverfisáhrif urðunar að Skarðsmóum mikið til þekkt, enda var þar starfræktur urðunarstaður til fjölda ára.

Í lokunarskýrslu urðunarstaðarins er fjallað um helstu umhverfisvandamál sem hafa komið upp. Einnig er þar gerð grein fyrir helstu niðurstöðum vöktunar frá rekstrartíma og eftir að urðun var hætt þar. Samkvæmt lokunaráætluninni er talið að um 250.000 tonn af úrgangi hafi verið urðuð á staðnum á tímabilinu 1987 til 2012 og að riðufé hafi áður verið urðað á svæðinu.

Vöktun á rekstrartíma hefur ekki leitt í ljós nein sérstök neikvæð umhverfisáhrif sem taka þarf á við lokun urðunarstaðarins.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun fór sýnataka í Skarðsmóum síðast fram árið 2016 og niðurstöður hennar benda til að mengunar gæti ekki frá urðunarstaðnum.

Frekari upplýsingar um undanþáguna er að finna á vef Umhverfisstofnunnar.

Lokunaráætlun fyrir Skarðsmóa

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum