Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2020 Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Vestnorrænu löndin skilgreini sameiginlegt grænt svæði

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, tók í dag þátt í ársfundi Vestnorræna ráðsins og flutti ræðu fyrir hönd samstarfsráðherra landanna þriggja, Íslands, Færeyja og Grænlands.

Sigurður Ingi fjallaði sérstaklega um tillögu sem komið hefur fram á vettvangi Vestnorræna ráðsins um að löndin þrjú kæmu sér saman um að skilgreina eitt sameiginlegt grænt svæði (Grön zone). Hægt yrði að ferðast milli landanna án takmarkana, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, s.s. nauðsynlegar skimanir og gagnkvæm viðurkenning mótefnavottorða. Löndin gætu orðið fyrst til að gera þetta og sýnt fordæmi.

Í ávarpi sínu lagði Sigurður Ingi áherslu á mikilvægi samstarfs ríkjanna þriggja, ekki síst á tímum yfirstandandi heimsfaraldurs. Þá væri samstarf landanna þýðingarmikið í því uppbyggingarstarfi sem bíður okkar eftir Covid-19.

„Þegar kemur að því að við náum yfirhöndinni í baráttunni við þennan vágest, sem heimsfaraldurinn er, ætti það að vera æskilegt fyrir löndin þrjú að vinna saman í þeirri uppbyggingu. Þar er af ýmsu að taka eins og að efla ferðamennsku á svæðinu. Það hefur sýnt sig að svæðið allt hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Þá hafa forsendur fyrir auknum flutningi á vörum og þjónustu aldrei verið betri á svæðinu,“ sagði Sigurður Ingi í ávarpi sínu.

„Á þessum tímum eru heilbrigðismál og geta heilbrigðiskerfa að takast á við erfið verkefni og áföll einnig ofarlega í hugum okkar allra. Þá þarf að huga vel að hagsmunum ungs fólks á vestnorræna svæðinu og stöðu tungumálanna þriggja, sem hornsteina samfélaganna, og þær áskoranir sem við sameiginlega stöndum frammi fyrir. Við Íslendingar munum áfram leggja áherslu á að vera leiðandi í þessu samstarfi með hagsmuni alls svæðisins að leiðarljósi,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.

  • Nánar um vestnorræna ráðið

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum