Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2020 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Leitað að hönnuðum til að þróa einkenni fyrir nýtt kerfi áfangastaðastjórnunar

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs leita að hönnuði eða hönnunarteymi til að vinna að hönnun og þróun einkennis og kynningarefnis fyrir nýtt kerfi áfangastaðastjórnunar, sem ber vinnuheitið Fyrirmyndaráfangastaðir í ferðaþjónustu

Markmiðið með Fyrirmyndaráfangastöðum er að skapa umgjörð utan um hugmyndafræði heildstæðrar nálgunar í áfangastaðastjórnun svo uppfylla megi eftirfarandi sýn:

  • Á Fyrirmyndaráfangastöðum fær náttúrufegurð að njóta sín og umhverfisstjórnun er til fyrirmyndar út frá áherslum sjálfbærrar þróunar þannig að framtíðarkynslóðir geti notið þeirra um ókomna tíð.
  • Fyrirmyndaráfangastaðir eru drifkraftur fyrir svæðisbundna þróun og hvetja til samstarfs og samhæfingar á svæðum. Uppbygging þeirra ýtir undir lengri dvöl og skapar þannig viðskiptatækifæri og efnahagslegan ávinning fyrir nærumhverfið. 
  • Fyrirmyndaráfangastaðir styðja við stefnu stjórnvalda í ferða-, umhverfis-, menningar- og samgöngumálum og styðja auk þess við nýsköpun og stafræna stjórnsýslu.

Megináhersla í áfangastaðastjórnun hingað til hefur verið á verndun náttúru í ljósi aukins álags vegna ferðamanna og aukið öryggi. Halda þarf áfram á þeirri braut en með nýrri heildstæðri nálgun sem eykur einnig upplifun og upphefur staðaranda. Fyrirmyndaráfangastaðir eiga ennfremur að stuðla að jákvæðri ímynd Íslands með áherslu á sjálfbærni, verndun náttúru og menningararfs, öryggi og upplifun.

Markmið í hönnun og útfærslu verkefnisins er að:

  • Skapa ásýnd verkefnisins og að einkenni Fyrirmyndaráfangastaða verði þekkt merki innanlands sem utan. 
  • Að ferðamenn geti auðveldlega fundið upplýsingar um staði sem eru Fyrirmyndaráfangastaðir eða eru í umsóknarferli, og um verkefnið.
  • Merkið verði jákvæð hvatning til staðarhaldara og nærumhverfis.

Verkefnið er að hanna og útfæra myndrænt einkenni, nafn/heiti (íslenska & enska), áferð og tón í samstarfi við verkefnahóp ráðuneytanna tveggja.

Ráðgjöf og utanumhald
Gerður Jónsdóttir, verkefnastjóri, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.

Valnefnd
María Reynisdóttir, sérfræðingur, fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.
Einar E. Sæmundssen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis.
Magnús Hreggviðsson, grafískur hönnuður, fulltrúi Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Tímarammi
9. nóv. // kallað eftir umsóknum
16. nóv.  // skil umsókna
17.-20. nóv. // vinna valnefndar og fundir með teymum
23. nóv. // samið við teymi og niðurstaða kynnt
23. nóv. // vinna við einkenni hefst
10. des. // fyrstu tillögur að einkenni kynntar  (þarf að semja við teymi)

Ekki er beðið um tillögur eða myndrænar útfærslur. Skila þarf skriflegri umsókn, að hámarki fjórar A4 blaðsíður, þar sem gerð er grein fyrir nálgun, samsetningu teymis, reynslu, tímaverði og fyrri verkefnum.

Valnefnd fer yfir umsóknir og velur 3-4 aðila úr innsendum umsóknum og boðar til fundar með þeim til að ræða mögulegt samstarf. Þar gefst aðilum frekara tækifæri til að kynna hönnunarteymið, aðferðafræði, fyrri verk og eiga samtal um verkefnið. Einn samstarfsaðili verður valinn í kjölfarið til að vinna verkið.

Helsta erlenda fyrirmynd verkefnis:
Frakkland: Grand Sites de France 

Umsóknir skal senda á netfangið [email protected] og frestur til  miðnættis mánudaginn 16. nóvember 2020, merkt ANR + heiti teymis/hönnuðar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira