Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2020 Innviðaráðuneytið

Sveitarstjórnir fá áfram svigrúm til að bregðast við aðstæðum í samfélaginu

Snæfell - myndHugi Ólafsson

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur framlengt heimild sveitarstjórna til að víkja tímabundið frá tilteknum skilyrðum ákvæða í sveitarstjórnarlögum til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og að auðvelda ákvörðunartöku þeirra við þær aðstæður sem eru uppi í þjóðfélaginu. Heimildin gildir til 10. mars 2021.

Ákvörðunin var tekin, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, í ljósi áframhaldandi samkomutakmarkana vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. 

Öllum sveitarstjórnum er því áfram heimilt að taka eftirfarandi ákvarðanir, sbr. auglýsingu Stjórnartíðinda, nr. 1076/2020:

  • Að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins, án þess að fjarlægðir séu miklar, samgöngur innan sveitarfélags séu erfiðar eða mælt sé fyrir um notkun slíks búnaðar í samþykktum sveitarfélagsins.
  • Að ákveða að engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem taka þátt í fundum sveitarstjórnar og nefnda sveitarfélagsins með fjarfundarbúnaði.
  • Að ákveða að valdsvið nefnda verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í samþykktum sveitarfélagsins.
  • Að fela fastanefnd eða einstökum starfsmönnum sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu tiltekinna mála sem varða ekki verulega fjárhag sveitarfélags og lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn, þrátt fyrir að kveðið sé á um annað í samþykktum sveitarfélagsins.
  • Að ákveða að staðfesting fundargerða sveitarstjórnar verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í 10. og 11. gr. auglýsingar um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna, nr. 22/2013.

Um er að ræða tímabundið frávik frá skilyrðum 3. mgr. 17. gr., 5. mgr. 35. gr., 1. mgr. 40. gr. 1. og 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, og 5. gr.  auglýsingar um leiðbeiningar um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna, nr. 1140/2013. Heimildin byggir á VI. bráðabirgðaákvæði laganna, sem öðlaðist gildi þann 17. mars síðastliðinn og gildir til áramóta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum