Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2020 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Greining á regluverki og fyrirkomulagi er varðar flutning og dreifingu raforku

Að undanförnu hefur verið umræða um flutnings- og dreifikostnað raforku á Íslandi og rekstrarumhverfi sérleyfisfyrirtækja sem sjá um flutning og dreifingu raforku samkvæmt raforkulögum. Flutningsfyrirtækið Landsnet og dreifiveitur starfa innan ramma tekjumarka sem Orkustofnun setur þeim samkvæmt ákveðnum viðmiðum og forsendum sem koma fram í raforkulögum og reglugerðum. Eru þau ákvæði raforkulaga í grunninn frá árinu 2003 en var talsvert breytt 2011. Ákvarða tekjumörkin gjaldskrár sérleyfisfyrirtækjanna fyrir flutning og dreifingu raforku.

Til að bregðast við gagnrýni og ólíkum sjónarmiðum sem fram hafa komið, m.a. á leyfða arðsemi, fjármagnskostnað, rekstrarkostnað o.fl., hefur ráðuneytið fengið Deloitte til að vinna óháða greiningu og rýni á lagalegu umhverfi við setningu tekjumarka sérleyfisfyrirtækja. Hluti af greiningunni er að leggja mat á hvaða atriði hafa áhrif á reiknuð tekjumörk, og með hvaða hætti, ásamt samanburði við önnur lönd. Jafnframt úttekt á því hvernig eftirliti og eftirfylgni með setningu tekjumarka er háttað, m.a. hvernig kröfu um hagræðingu er fylgt eftir.

Greiningarvinna Deloitte nær jafnframt til skoðunar á leiðum til aukinnar jöfnunar orkukostnaðar á landsvísu og möguleikum á sameiningu gjaldskráa fyrir dreifingu raforku og hugsanlegra sameininga dreifiveitna.

Um er að ræða faglega óháða greiningu og rýni á framangreindu regluverki og beitingu þess, með áherslu á samkeppnishæfni út frá flutnings- og dreifikostnaði raforku, tækifæri til hagræðingar og aukinnar skilvirkni, og jöfnun orkukostnaðar í landinu. Eru þessar áherslur m.a. í samræmi við markmið og leiðarljós sem fram koma í nýlegri Orkustefnu fyrir Ísland til 2050.

Haft verður samráð við hagsmunaaðila við gerð skýrslu Deloitte og kallað eftir sjónarmiðum þeirra og ábendingum. Ráðgert er að skýrsla Deloitte liggi fyrir í byrjun árs 2021.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira