Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

75 ár liðin frá stofnun Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO

Frá aðalráðstefnu UNESCO árið 2019. - mynd
Í ár eru 75 ár frá því að Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) var komið á fót, en fyrirrennari stofnunarinnar starfaði frá árinu 1922 á vettvangi Þjóðarbandalagsins. Ísland gerðist aðili að stofnuninni þann 8. júní 1964 og árið 1966 ákvað ríkisstjórnin að stofna íslenska UNESCO-nefnd.

UNESCO er sérstofnun Sameinuðu þjóðanna og er meginmarkmið hennar að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda, menningarmála og fjölmiðla. UNESCO ber höfuðábyrgð á því meðal alþjóðastofnana að innleiða fjórða heimsmarkmiðið um menntun.

„Menningarmálastofnunin er mikilvægur samstarfsvettvangur fyrir þjóðir heims. Markviss alþjóðleg samvinna er lykillinn að því að mæta flóknum sameiginlegum áskorunum okkar tíma, því skilningur og lausnir tengjast að stórum hluta menntun og menningarlæsi okkar – færninni til að nema, skilja og virða ólíka menningarheima,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Virkt samstarf íslenskra stjórnvalda við stofnunina
Á Íslandi eru starfandi tvær sjálfstæðar stofnanir undir merkjum UNESCO, GRÓ - Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, þar sem saman eru komnir fjórir skólar sem höfðu fram til loka árs 2019 verið starfræktir undir formerkjum Háskóla SÞ hér á landi, og Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar við Háskóla Íslands. Frá árinu 1998 hefur Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, verið velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO.

Þá eru íslensk stjórnvöld með samstarfssamning við stofnunina á sviði þróunarsamvinnu sem undirritaður var í apríl á síðasta ári. Hann felur í sér að Ísland styður við verkefni á vegum stofnunarinnar, m.a. með því að styrkja getu fátækra ríkja við umbætur á sviði menntamála og stuðla að tjáningarfrelsi og öryggi blaðamanna í þróunarlöndum.

Starf UNESCO sýnilegt víða á Íslandi
UNESCO hefur haft forystu um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsbyggðarinnar og Ísland hefur lagt ríka áherslu á skráningu minja á Heimsminjaskrá UNESCO. Vatnajökulsþjóðgarður komst á heimsminjaskrá stofnunarinnar í júlí á síðasta ári, en fyrir voru Surtsey og Þingvellir hluti af skránni. Reykjavík var árið 2011 útnefnd Bókmenntaborg UNESCO, en hún var fimmta borgin í heiminum til að hljóta þennan heiður og sú fyrsta utan ensks málsvæðis.

UNESCO-nefndin og fastanefnd Íslands gagnvart stofnuninni
Hlutverk Íslensku UNESCO-nefndarinnar er að vera ríkisstjórninni og sendinefnd Íslands til ráðuneytis í málum er varða stofnunina og tengiliður á milli UNESCO og íslenskra stofnana. Sendiráð Íslands í París gegnir hlutverki fastanefndar gagnvart stofnuninni og sinnir daglegu starfi fyrir Íslands hönd innan UNESCO. Unnur Orradóttir-Ramette, sendiherra Íslands í París, leiðir m.a. vinnu vinahóps um jafnréttismál í samstarfi við fastafulltrúa Óman.

Sjá nánar á unesco.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira