Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Bati góðgerðarfélag fær styrk til að aðstoða einstaklinga sem lokið hafa afplánun

Frá undirskrift samningsins.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur gengið frá samningi við  félagasamtökin Bata þar sem þau fá styrk upp á 25 milljónir króna í þeim tilgangi að byggja upp áfangaheimili og stuðningsúrræði fyrir  einstaklinga sem hafa lokið afplánun refsingar. Markmiðið er að veita einstaklingum stuðning til að auðvelda þeim aðlögun að samfélaginu að nýju.

Ráðherra skipaði í júní 2018 starfshóp um bættar félagslegar aðstæður einstaklinga sem lokið hafa afplánun refsingar í fangelsi. Ráðherra skipaði Þorlák „Tolla“ Morthens, myndlistarmann formann starfshópsins en upphaflegt markmið hópsins var að skoða hvernig bæta mætti félagsleg úrræði fyrir fanga að afplánun lokinni. Hópurinn skilaði skýrslu um vinnuna í desember á síðasta ári en í henni var lagt til að við upphaf fangavistar verði hægt að velja um tvær leiðir, annars vegar bataleið og hins vegar refsileið. Föngum í bataleið verði þá boðin fjölbreyttari og einstaklingsmiðaðri úrræði en nú standa til boða.

Bati góðgerðarfélag var stofnuð síðastliðið sumar. Tilgangur félagsins er að koma á fót áfangaheimili og stuðningsúrræði fyrir einstaklinga sem hafa verið í réttarvörslu og þarfnast stuðnings við að verða virkir þátttakendur í samfélaginu á ný. Félagið mun þjóna þeim hópi sem hefur vilja og getu til að nýta sér vímuefnalaust úrræði þar sem veittur er margþættur stuðningur til að styðja þátttakendur út úr vímuefnanotkun og afbrotum á uppbyggilegan hátt.  Miðað er við að einstaklingar geti dvalið á áfangaheimilinu og nýtt sér stuðningsúrræði í allt að tvö ár.

Bati eru frjáls félagasamtök, sem verða fjármögnuð með framlögum frá einstaklingum,  fyrirtækjum og opinberum aðilum. Hjá Bata geta einstaklingar meðal annars fengið stuðning til að afla sér fræðslu og/eða menntunar til að auðvelda innkomu aftur á vinnumarkað. Auk þess hyggst félagið reka áfangaheimilið Batahús sem stendur aðilum til boða á meðan þeir eru að fóta sig í samfélaginu að nýju.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Verkefnið er að bæta félagslegar aðstæður einstaklinga sem lokið hafa afplánun refsingar í fangelsi. Við sem samfélag þurfum að taka betur utan um þá einstaklinga sem eru að fóta sig í samfélaginu á ný eftir að hafa lokið afplánun, og opnun Batahúss er stórt skref í þá átt.“

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum