Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

COVID 19: Sýnataka á landamærum gjaldfrjáls tímabundið

Flugstöð - myndHaraldur Jónasson / Hari

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að sýnataka á landamærum verði gjaldfrjáls frá 1. desember næstkomandi til 31. janúar 2021. Ákvörðunin er tekin í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Markmiðið er að hvetja fólk til að fara í sýnatöku fremur en að fara í sóttkví og draga þannig úr líkum á að smit berist inn í landið. Fjallað var um málið á fundi ríkisstjórnar í dag.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra lýsir hann áhyggjum af því að með vaxandi útbreiðslu faraldursins erlendis aukist líkur á að smit berist inn í landið ef ferðamenn velji sóttkví en fylgi ekki reglum sem gilda um sóttkví. Vísar hann til þess að í mörgum tilvikum hafi kviknað grunur um að ferðamenn muni ekki fylgja reglum um sóttkví, t.d. þegar um er að ræða ferðamenn sem einungis ætla að dvelja hér í nokkra daga. Til að bregðast við þessu leggur hann til að annað hvort verði öllum gert skylt að fara í skimun nema læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því eða að ekki verði tekið gjald fyrir skimun á landamærum.

Ákvörðun heilbrigðisráðherra um gjaldfrjálsa sýnatöku á landamærum tekur sem fyrr segir gildi 1. desember næstkomandi og gildir til 31. janúar 2021.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum