Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisþing um menntun, mönnun og nýsköpun 27. nóvember

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Mönnun, menntun og nýsköpun í heilbrigðisþjónustu er viðfangsefni heilbrigðisþings 2020. Þingið er liður í vinnu við gerð þingsályktunartillögu heilbrigðisráðherra um stofnun sérstaks ráðs á landsvísu um þessi mál. Þingið verður rafrænt og stendur frá kl. 8.30–12.00. Skráning þátttöku fer fram á vefnum heilbrigdisthing.is og þar eru jafnframt upplýsingar um fyrirlesara og aðgengilegar skýrslur sem varða efni þingsins.

Þetta er þriðja heilbrigðisþingið sem ráðherra efnir til í þeim tilgangi að styrkja stoðir  heilbrigðiskerfisins og efla heilbrigðisþjónustu við landsmenn. Umfjöllunarefnið í ár er í samræmi við óskir og áherslur þeirra fjölmörgu sem tóku þátt í þinginu í fyrra, samkvæmt niðurstöðu rafrænnar könnunar sem lögð var fyrir gesti þingsins.

Á fyrsta heilbrigðisþinginu sem haldið var í nóvember 2018 var lagður grunnur að mótun tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi í júní 2019. Á grundvelli heilbrigðisstefnunnar var heilbrigðisþing 2019 helgað siðferðilegum gildum og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Þingið var liður í vinnu við gerð þingsályktunartillögu um þessi mál sem lögð var fram á Alþingi í mars á þessu ári og samþykkt sem ályktun þingsins 9. júní síðastliðinn.

Eins og segir í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er mönnun heilbrigðisþjónustunnar alþjóðleg áskorun þar sem samkeppni um mannauðinn er vaxandi og eftirspurn eftir íslensku heilbrigðisstarfsfólki til starfa erlendis mikil. Því sé nauðsynlegt að stöðugt sé fjárfest í menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks hér á landi. Einnig er bent á að áskoranir framtíðarinnar muni krefjast nýsköpunar, jafnt í þróun tækni og vinnubrögðum starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni. Því skipti m.a. miklu máli að stjórnsýsla og lagaumgjörð heilbrigðismála veiti nægilegt svigrúm til þróunar og nýsköpunar. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra: Heilbrigðisþingið í ár verður haldið við óvenjulegar aðstæður á tímum COVID-19 farsóttarinnar sem gengur yfir heimsbyggðina. Farsóttin hefur þegar leitt í ljós að öflugt, opinbert heilbrigðiskerfi er ein af grundvallarforsendum þess að þjóðir geti tekist á við slíkar fordæmalausar aðstæður. Hér á landi höfum við vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sem staðið hefur í framlínunni og sýnt ótrúlegan sveigjanleika, hugvit og aðlögunarhæfni. Mikil þekking og reynsla hefur skapast og nýjar leiðir og lausnir hafa orðið til svo unnt sé að halda úti mikilvægri heilbrigðisþjónustu við landsmenn við erfiðar aðstæður. Án efa mun margvíslegur lærdómur sem af þessu ástandi hefur hlotist nýtast heilbrigðiskerfinu til framtíðar. Síðast en ekki síst ætti þessi reynsla að brýna okkur til þess að hlúa að heilbrigðiskerfinu, styrkja og efla menntun heilbrigðisstarfsfólks, bæta starfsumhverfi þess, vinna að tryggri mönnun heilbrigðiskerfisins til framtíðar og efla vísindi og nýsköpun. Um þessa mikilvægu þætti fjallar heilbrigðisþingið 2020 og ég stefni að því að afrakstur þingsins verði grunnur að þingsályktunartillögu til Alþingis um þessi mikilvægu mál. Það er von mín að sem flestir sem láta sig málefni þingsins varða, þ.e. menntun, mönnun og nýsköpun á sviði heilbrigðisþjónustu taki þátt og leggi sitt af mörkum til umræðunnar. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum