Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntastefna til ársins 2030 lögð fram á Alþingi

Menntastefna til ársins 2030 lögð fram á Alþingi  - myndEggert Jóhannesson / Morgunblaðið

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu um menntastefnu til ársins 2030. Þingsályktunin er afrakstur yfirgripsmikils samráðs við skólasamfélagið og aðra hagaðila sem hófst veturinn 2018/2019 þegar haldnir voru 23 fræðslu- og umræðufundir um menntamál vítt og breitt um landið. Drög menntastefnunnar voru síðan til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda sl. vetur og bárust margar gagnlegar umsagnir og athugasemdir sem unnið var úr. Þá hafa sérfræðingar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) verið til ráðgjafar við mótun stefnunnar og skilgreiningar markmiða hennar.

„Á tímum umskipta, óvissu og örra tæknibyltinga verða þjóðir heims að búa sig undir sífellt flóknari áskoranir. Framtíðarhorfur okkar samfélags velta á samkeppnishæfni og sjálfbærni íslenska menntakerfisins. Ný menntastefna tekur mið af því hvernig menntun styrkir, verndar og vekur viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga. Það gleður mig að hún er nú til umræðu hér á Alþingi og fagna umræðu um inntak hennar og framtíðarsýn,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. 

Markmið nýrrar menntastefnu er að veita framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem allir geta lært og allir skipta máli. Því eru leiðarljós hennar: þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja. 

Stoðir stefnunnar eru: 

I. Jöfn tækifæri fyrir alla
II. kennsla í fremstu röð
III. hæfni fyrir framtíðina
IV. vellíðan í öndvegi
V. gæði í forgrunni


Ráðgert er að innleiðingu menntastefnunnar verði skipt í þrjú tímabil og að við upphaf hvers tímabils verði lögð fram slík áætlun ásamt aðgerðum og árangursmælikvörðum. Fyrirhugað er að fyrsta áætlunin verði lög fram og kynnt af mennta- og menningarmálaráðherra innan sex mánaða frá samþykkt þingsályktunarinnar.

Hér má lesa þingsályktunartillöguna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum