Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Þrautseigja og þekking, hugrekki og hamingja

Enginn kemst á áfangastað nema vita hvert ferðinni er heitið! Skýr markmið eru forsenda þess að árangur náist. Við gerð nýrrar menntastefnu hafa þau sannindi verið höfð að leiðarljósi. Ég mun í dag mæla fyrir þingsályktun um menntastefnu til ársins 2030. Það er mín von að þingheimur verði samstiga í því brýna samfélagsverkefni að varða menntaveginn inn í framtíðina.

 Meginmarkmiðið er að tryggja Íslendingum framúrskarandi menntun alla ævi. Stefnan byggist á fimm stoðum, sem saman mynda traustan grunn til að byggja á. Við viljum 1) jöfn tækifæri fyrir alla, 2) að kennsla verði í fremstu röð, 3) að nemendur öðlist hæfni fyrir framtíðina, 4) að vellíðan verði í öndvegi í öllu skólastarfi og 5) gæði í forgrunni. Undir stoðunum fimm hafa 30 áhersluþættir verið skilgreindir, sem eiga að skapa öflugt og sveigjanlegt menntakerfi - kerfi sem stuðlar að jöfnum tækifærum til náms, enda geta allir lært og allir skipta máli. Verði þingsályktunartillagan samþykkt verður unnin aðgerðaáætlun með árangursmælikvörðum til þriggja ára í senn, sem metin verður árlega.

Menntastefnan var unnin í víðtæku samráði, með aðkomu fjölmargra aðila úr skólasamfélaginu. Stefnumótunin byggðist m.a. á efni og umræðum á fundum með skólafólki og fulltrúum sveitarfélaga um allt land, samræðum á svæðisþingum tónlistarskóla, samstarfi við foreldra, börn og ungmenni, atvinnulíf, Efnahags- og framfarastofnunina (e. OECD) og fleiri hagsmunaaðila. Stefnudrög fengu jákvæð viðbrögð í samráðsgátt stjórnvalda, þaðan sem gagnlegar ábendingar bárust og voru þær m.a. notaðar til að þétta stefnuna og einfalda framsetninguna. Fyrir vikið er textinn aðgengilegur og skýr, sem er ein af forsendum þess að allir hlutaðeigandi skilji hann á sama hátt og sammælist um markmiðin.

Menntun er lykillinn að tækifærum framtíðarinnar. Hún er eitt helsta hreyfiafl samfélaga og á tímum fádæma umskipta, óvissu og örra tæknibyltinga verða þjóðir heims að búa sig undir aukinn breytileika og sífellt flóknari áskoranir. Framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar velta á samkeppnishæfni og sjálfbærni íslenska menntakerfisins. Velgengni byggist á vel menntuðum einstaklingum með skapandi og gagnrýna hugsun, félagsfærni og góð tök á íslensku og erlendum tungumálum til að takast á við hnattrænar áskoranir.

Menntun styrkir, verndar og eflir viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga. Með menntastefnu verður lögð áhersla á að styrkja viðhorf Íslendinga til eigin menntunar með vaxtarhugarfar að leiðarljósi. Þekkingarleitinni lýkur aldrei og menntun, formleg sem óformleg, er viðfangsefni okkar allra, alla ævi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. nóvember 2020

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira