Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tryggja aðgang iðnnema að vinnustaðanámi

Mennta- og menningarmálaráðherra kynnti ríkisstjórn í dag drög nýrrar reglugerðar um vinnustaðarnám og starfsþjálfun iðnnema í framhaldsskólum. Drögin hafa verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

„Markmið nýrrar reglugerðar er annars vegar að færa ábyrgðina á því að iðnnámsnemandi komist í vinnustaðanám frá nemendunum sjálfum til skólanna, og hins vegar að auðvelda núverandi nemendum í iðnnámi að ljúka starfsþjálfun þrátt fyrir sveiflur í atvinnulífinu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Jafnframt gerir reglugerðin ráð fyrir að tímalengd vinnustaðanáms geti tekið mið af hæfni nemenda en ekki fyrirfram skilgreindum viknafjölda eins og verið hefur. Þá er í vinnslu rafræn ferilbók fyrir nemendur þar sem fram fer skráning á námi og námsferli nemandans bæði í skóla og á vinnustað. Markmið hennar er að efla gæði starfsþjálfunar með því að auka samskipti milli nemanda, skóla og vinnustaðar, hafa yfirsýn yfir hvernig hæfni nemandans vindur fram og auðvelda þannig nemandanum og skólanum að halda utan um námið. Í ferilbókinni er tiltekin hæfni nemanda staðfest af umsjónarmönnum skóla auk iðnmeistara, fyrirtækis og stofnana eftir því sem við á.

Takist skóla ekki að finna vinnustaðarnám fyrir nemendur er lagt til með reglugerðardrögunum að farin verði svokölluð skólaleið. Í skólaleiðinni felst að skólinn í samstarfi við atvinnulífið tryggir að nemendi fái vinnustaðanám þar sem námssamningur er gerður milli nemanda, skóla og fyrirtækis eða stofnunar um að veita nemanda tilskilda þjálfun og menntun.Vinnustaðarnámið gæti þá farið fram í skólanum sjálfum eða á vinnustöðum, einum eða fleiri.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum