Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2020 Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Samstarfsráðherrar samþykktu aðgerðaáætlun um framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd

Í dag funduðu samstarfsráðherrar Norðurlanda á fjarfundi, sem var sá síðasti á árinu undir danskri formennsku.  Danir hafa gengt formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2020 og hafa lagt áherslu á samstarf um nýjar lausnir, sem geta komið Norðurlöndunum í fararbrodd í loftslagsmálum um leið og áframhaldandi áhersla er á samkeppnishæfni og félagslega sjálfbærni, í samræmi við markmið framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar 2030. Á næsta ári, 2021, taka Finnar við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, sem einnig mun fagna 50 ára afmæli.

Á fundinum samþykktu ráðherrar fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2021-2024, þar sem tekið er mið af þeirri framtíðarsýn fyrir samstarfið sem forsætisráðherrarnir samþykktu í fyrra, um að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Þá kom fram mikil samstaða ráðherra um mikilvægi þess að vinna að framkvæmd áætlunarinnar í nánu samstarfi við almenning á Norðurlöndunum. Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra, dró fram mikilvægi aðgerðaráætlunarinnar, og sagði hana „mikilvægt tæki í allri vinnu ráðherranefndarinnar til að koma í framkvæmd markmiðum framtíðarsýnarinnar“. Á formennskuári sínu, 2021, leggja Finnar áherslu á að koma framkvæmdaáætluninni í verk, sem samþykkt var.

Þá ræddu ráðherrar samstarf á krísutímum, sem í núverandi heimsfaraldri hefur haft mikil áhrif á norrænt samstarf, ekki eingöngu varðandi áskoranir við frjálsa för yfir landamæri Norðurlanda heldur allt samfélagið. Í þessu sambandi undirstrikaði Sigurður Ingi m.a. mikilvægi þess að tryggja aukinn skýrleika og skilning á reglum sem í gildi eru til að takmarka fjölda hindrana sem til koma vegna ferða á milli Norðurlandanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum