Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Náttúruminjasafn Íslands fær aðstöðu á Seltjarnarnesi

Náttúruminjasafn Íslands fær aðstöðu á Seltjarnarnesi - myndMYND: Vigfús Birgisson / Náttúruminjasafn Íslands
Ríkissjóður hefur gengið frá samningi við Seltjarnarnesbæ um yfirtöku á húsnæðinu við Safnatröð og er verkefnið hluti af fjárfestingarátaki til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Í samræmi við áframhaldandi fjárfestingarátak stjórnvalda er gert ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðuneytið fái um 650 m.kr. fjárveitingu í fjárlagafrumvarpi 2021 og fjármálaáætlun 2021-2025 til að standa undir kostnaði við að ljúka framkvæmdum á eigninni undir opinbera starfsemi.

Húsið sem upphaflega átti að hýsa Lækningaminjasafn Íslands hentar að mörgu leyti vel fyrir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands með lítilsháttar breytingum. Það er talið hagkvæmari kostur að nýta núverandi hús sem er hálfbyggt og aðlaga það af þörfum safnsins en að hanna og byggja nýtt hús frá grunni.

Náttúruminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna landsins og var stofnsett með lögum árið 2007 en sögu þess má rekja mun lengra aftur. Safnið ræður ekki yfir eigin húsnæði, hvorki til sýningahalds né annarra starfa, og því brýnt að leysa húsnæðisvanda þess.

Nes á Seltjarnarnesi er álitið vera kjörinn framtíðarstaður fyrir sýningar Náttúruminjasafns Íslands með hliðsjón af nánd við hafið, náttúru svæðisins og menningarsögulegu gildi staðarins.
Framkvæmdasýsla ríkisins mun fara með stjórn verklegra framkvæmda á eigninni og gert er ráð fyrir að það taki um tvö ár að gera húsið tilbúið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum