Hoppa yfir valmynd
2. desember 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Miklar fjárfestingar í íslenskum nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum á árinu 2020

Á árinu 2020 jukust fjárfestingar í íslenskum nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum talsvert og nema fjárfestingarnar alls 17 ma.kr. Þetta er hærri fjárhæð en fjárfest var fyrir allt árið 2019, þótt fjárfestingarnar séu færri. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra, hefur upplýst ríkisstjórn um gengi fjárfestinganna. Þær benda til þess að vistkerfi nýsköpunar á Íslandi sé að þroskast með fyrirtækjunum þar sem sprotar á mörgum mismunandi vaxtarskeiðum ná að fjármagna sig með aðkomu innlendra og erlendra fjárfesta. 

Fjárfestingar í nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum eru yfirleitt í stigum og fjárfest fyrir lægri fjárhæðir snemma í ferli. Þau fyrirtæki sem ná markmiðum sínum eða miðar vel áfram sækja svo fjármagn byggt á þeim árangri. Færri og stærri fjárfestingar í vistkerfi á borð við það íslenska benda til þess að fyrirtæki séu að  ná inn hærri fjárfestingum en áður, oft í tengslum við vöxt og markaðsstarf. Slíkar fjárfestingar koma iðulega frá stærri erlendum aðilum í kjölfar lægri fjárfestinga frá mikilvægum sérhæfðum nýsköpunarfjárfestum hér á landi.  

Erlendir aðilar koma alfarið eða að hluta að meirihluta fjárfestinga ársins, eða 63%. Heildarupphæð erlendra fjárfestinga er um 12 ma.kr. eða 74% af heildarupphæðinni og er áætlað að einn þriðji þeirra komi frá Evrópu og tveir þriðju frá Bandaríkjunum. 

Þrátt fyrir gjörbreyttar aðstæður vegna heimsfaraldurs COVID-19 hafa þó nokkur íslensk fyrirtæki náð miklum árangri undanfarið, meðal annars hafa sjö leikjafyrirtæki fengið 2,2 ma.kr. í fjármögnun, að mestu leyti erlendis frá. Þetta er bæði mesti fjöldi fyrirtækja og hæsta upphæð sem leikjaiðnaðurinn hefur fengið frá árinu 2015.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum