Hoppa yfir valmynd
3. desember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Bætt aðgengi framhaldsskólanema að geðheilbrigðisþjónustu

Unnið er að því að bæta aðgengi framhaldsskólanema að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu og í því skyni hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti samið við nýsköpunarfyrirtækið Kara Connect um að veita alls 7 framhaldsskólum aðgang að stafrænni lausn sem tengir nemendur við sérfræðinga í gegnum öruggt vefsvæði.

Fjölmargir sérfræðingar í heilbrigðis-, félags- og menntakerfinu notast við kerfi Köru Connect til þess að eiga í samskiptum við skjólstæðinga sína í gegnum spjall- og myndfundi á netinu. Kerfið hefur reynst vel og nú þegar hafa margir skólanna nýtt sér hugbúnaðinn með ýmsum hætti.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Með þessum samningi viljum við auka og bæta aðgengi framhaldsskólanemenda að geðheilbrigðisþjónustu, bæði innan eða utan skóla. Það hefur marga kosti að veita þessa þjónustu með stafrænni tækni, ekki síst í núverandi árferði. Við höfum heyrt skýrt ákall um mikilvægi þessa og við því er mikilvægt að bregðast. Þá munum við nýta þessar upplýsingar til þess að móta framtíðarsýn fyrir nánari uppbyggingu á stoðkerfi fyrir framhaldsskólanna,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri og stofandi Kara Connect:
„Framhaldsskólanemum finnst sjálfsagt og eðlilegt að hafa gott aðgengi að upplýsingum og þjónustu á við geðheilbrigðisþjónustu í gegnum internetið. Eins og við höfum orðið vitni að síðustu misserin eru væntingar þeirra ekki einungis réttmætar heldur er beinlínis áríðandi að við uppfyllum þær. Að uppfylla þessa kröfu er tiltölulega einfalt, en það er ekki auðvelt. Við þurfum samtímis að gerbreyta vinnuferlum þeirra sérfræðinga sem veita geðheilbrigðisþjónustu og styðja þá og verja á meðan á breytingunum stendur. Þetta er verkefni til framtíðar, verkefni sem varðar okkur öll, verkefni á heimsmælikvarða. Við stöndum á þröskuldi stafrænnar umbyltingar sem færir ungu fólki betra, öruggara og einfaldara aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu."

Auður Aþena Einarsdóttir framhaldsskólanemi og margmiðlunarstjóri Sambands íslenskra framhaldsskólanema: 

„Það er mjög einfalt og þægilegt að nota Kara Connect heimanfrá og ég hef ekkert nema góða reynslu af því að nota forritið. Það er mikilvæg viðbót við stoðþjónustu í framhaldsskólum, sérstaklega á þessum skrýtnu tímum. Staðviðtöl eru mjög mikilvæg en Kara Connect er góður og hentugur valkostur fyrir fjöldann allan af framhaldsskólanemum."


Í gegnum hugbúnað Kara Connect munu nemendur m.a. hafa rafrænan aðgang að þjónustu frá sérfræðingum í stoðkerfum skólanna, s.s. sálfræðingum, náms- og starfsráðgjöfum, félagsráðgjöfum o.fl. – og samtímis gefur þetta viðkomandi sérfræðingum færi á nánara samstarfi og samhæfingu í stoðkerfi við nemendur í viðkomandi skóla.

Búnaðurinn uppfyllir allar kröfur um persónuvernd og eru öll gögn dulkóðuð og geymd á öruggan máta til að vernda persónugreinanlegar upplýsingar skjólstæðinga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum