Hoppa yfir valmynd
4. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Sjötti fundur norrænna þróunarsamvinnuráðherra á þessu ári

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók þátt í fjarfundi þróunarsamvinnuráðherra Norðurlanda sem haldinn var í dag. Grænar áherslur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og jafnt aðgengi að bóluefni við COVID-19 voru í brennidepli á fundinum, sem er sá sjötti sem þeir halda á þessu ári. 

Ráðherrarnir voru sammála um að fjárfesting, uppbygging og aðgangur að sjálfbærri orku væri grundvöllur að grænni uppbyggingu eftir heimsfaraldurinn og leggja skyldi áherslu á grænar fjárfestingar alþjóðlegu fjárfestingabankanna, þar með talið Alþjóðabankans. Lögðu ráðherrarnir áherslu á að sú uppbygging sem fer fram í kjölfar COVID-19 verði að byggja á jafnrétti og mannréttindum.

Öll norrænu ríkin hafa lagt verulagt fjármagn í alþjóðlegt átak um þróun bóluefnis við COVID-19 og jafnan aðgang að því. Bent var á að þótt kostnaðurinn við að þróa, framleiða og veita aðgang að bóluefni væri mikill skilaði sú fjárfesting sér aftur nánast samstundis þegar hagkerfi heimsins opnast aftur. 

„Heimsfaraldurinn og aðgerðir honum tengdar hafa þegar haft afar neikvæðar afleiðingar á heilsu og velferð fólks í þróunarríkjum. Milljónir bætast í hóp sárafátækra og hungraðra og töluvert hefur dregið úr bólusetningum barna. Nauðsynlegt er að huga að því að þegar byrjað verður að bólusetja fyrir kórónuveirunni þá komi það ekki niður á annarri heilbrigðisþjónustu og dragi ekki enn frekar úr barnabólusetningum vegna annarra lífshættulegra sjúkdóma,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Ráðherrarnir lýstu yfir ánægju með nýlega framlagaráðstefnu fyrir Afganistan, sem haldin var í Genf í nýliðnum mánuði. Finnum var sérstaklega hrósað fyrir sinn þátt en þeir skipulögðu ráðstefnuna ásamt Afganistan og Sameinuðu þjóðunum. Vakið hefur athygli hversu háum framlögum var lofað til uppbyggingar í Afganistan í ljósi aðstæðna. Ísland tilkynnti á ráðstefnunni um þrjátíu milljóna króna framlag til mannúðarstarfs þar.

Að lokum lýstu ráðherrarnir yfir áhyggjum vegna ástandsins í Tigray-héraði í Eþíópíu. Mikill fjöldi flóttamanna hefur flúið til Súdans og hætta er á neyðarástandi í kjölfar átakanna. Ráðherrarnir lýstu yfir sérstökum áhyggjum vegna réttinda óbreyttra borgara og aðgangi þeirra að mannúðaraðstoð. Mikilvægt væri að friðsamleg lausn finnist sem fyrst.
 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum