Hoppa yfir valmynd
8. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Ísland setur 90 milljónir í Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna

Ísland mun veita 90 milljónum króna til Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF). Þetta tilkynnti Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, á framlagaráðstefnu sjóðsins í dag. 

Samkvæmt yfirlitsskýrslu fyrir 2021 sem Samhæfingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) kynnti í síðustu viku mun þörfin fyrir mannúðaraðstoð aukast um 40% milli ára vegna óbeinna áhrifa af völdum COVID-19. Í einföldu máli má hugsa sér að ef allir þeir sem áætlað er að þurfi á mannúðaraðstoð og vernd að halda á næsta ári byggju í einu landi, væri það land það fimmta fjölmennasta í heiminum.

Í ræðu sinni á ráðstefnunni lagði Martin áherslu á mikilvægi þess að konur og stúlkur séu í forgrunni í allri mannúðaraðstoð. „Við getum ekki horft framhjá þeirri staðreynd að í neyðaraðstæðum, þegar fátækt og hungur eykst, eru konur og stúlkur sérstaklega berskjaldaðar fyrir ofbeldi og annarri misnotkun. COVID-19 heimsfaraldurinn hefur síðan gert ástandið enn verra,“ sagði Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri á ráðstefnunni. 

40 milljóna króna viðbótarframlag

Í þróunarsamvinnustefnu Íslands er lögð áhersla á fyrirsjáanleg framlög til mannúðaraðstoðar. Í samræmi við þá áherslu endurnýjaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra rammasamning við CERF fyrir tímabilið 2020-2023 en ársframlög Íslands til sjóðsins nema 50 milljónum króna á ári. Heildarframlag Íslands á framlagaráðstefnu CERF fyrir 2021 felur því í sér 50 milljón króna framlag samkvæmt rammasamningi ásamt 40 milljón króna viðbótarframlagi fyrir yfirstandandi ár. 

CERF, sem  er sérstakur sjóður undir OCHA, eykur viðbragðsflýti stofnana Sameinuðu þjóðanna og beinir sjónum að undirfjármögnuðum og gleymdum neyðarsvæðum. Á síðasta ári veitti CERF fjármagn til stofnana sem aðstoðuðu rúmlega 29 milljón manns í 52 löndum og svæðum. Á þessu ári hefur CERF úthlutað rúma 15 milljarða króna til að takast á við áhrif heimsfaraldursins í 52 löndum. 

Frá því að sjóðurinn var settur á laggirnar 2006 hefur mannúðarþörf í heiminum aukist margfalt. Þeim sem þurfa á mannúðaraðstoð og vernd að halda hefur fjölgað úr 32 milljónum manns árið 2006 í 260 milljón manns árið 2020, samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna. 

 

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira