Hoppa yfir valmynd
9. desember 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skilvirkari og betri opinber þjónusta með stafrænu pósthólfi

Skilvirkari og betri opinber þjónusta og aukið gagnsæi við meðferð mála eru meðal helstu markmiða með frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um stafrænt pósthólf sem verið hefur til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda en frestur til að veita umsögn um frumvarpið var til 7. desember sl.

Markmiðið með fyrirhugaðri löggjöf um stafrænt pósthólf er einnig að auka hagkvæmni í stjórnsýslu og tryggja örugga leið til miðlunar gagna við einstaklinga og lögaðila og að meginboðleið stjórnvalda við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað. Stóraukin eftirspurn er hjá almenningi eftir að geta fengið gögn frá hinu opinbera með stafrænum hætti í stað bréfpósts en áfram verður hægt að óska eftir því að fá bréfpóst, kjósi fólk fremur þann sendingarmáta.

Frumvarpið leiðir af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 2017 um að byggja skuli upp stafræna þjónustugátt þar sem landsmenn geti á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og stefnu ríkisstjórnarinnar frá 2019 um að árið 2020 skuli stafræn þjónusta verða meginleið samskipta á milli almennings og, hins opinbera. Enn fremur var samþykkt þingsályktun í janúar á þessu ári þar sem segir að fjármála- og efnahagsráðherra skuli stórefla vinnu er varðar gæði rafrænnar þjónustu hins opinbera gagnvart almenningi .

Hægt að nýta rafræn skilríki eða íslykil

Stafræna pósthólfið hefur verið starfrækt á vefnum Ísland.is í nokkur ár. Um 30 opinberar stofnanir nýta sér þann möguleika að birta þar ýmis skjöl, svo sem staðfestingar og niðurstöður umsókna. Þar má nefna rafræn sakavottorð frá Sýslumönnum, fæðingarvottorð og ýmis önnur vottorð frá Þjóðskrá Íslands og álagningarseðla frá Skattinum auk þess sem Fjársýsla ríkisins sendir alla reikninga í pósthólfið. Auðvelt er að nálgast gögn í pósthólfinu en með rafrænni auðkenningu– rafrænum skilríkjum eða íslykli - getur hver og einn tengst sínu eigin stafræna pósthólfi á Ísland.is. Til að auðvelda einstaklingum að fylgjast með nýjum gögnum má stilla gáttina þannig að hnippt sé í viðtakanda með tölvupósti ef ný gögn berast. Notkun pósthólfsins hefur aukist jafnt og þétt og hefur tilkoma þess sparað almenningi sporin, auk þess sem sendingarkostnaður lækkar og kolefnisfótspor minnkar. 

Auðveldara að senda gögn á rafrænu formi

Verði frumvarpið um stafrænt pósthólf samþykkt á Alþingi er lagagrundvöllur pósthólfsins styrktur og öllum stofnunum sem og sveitarfélögum þannig gert kleift að nýta sér pósthólfið og þeim gert auðveldara að senda gögn á rafrænu formi. Er gert ráð fyrir að í pósthólfinu skuli birta hvers konar gögn, jafnt rituð sem í öðru formi, sem verða til við meðferð máls, svo sem tilkynningar, ákvarðanir, úrskurði, ákvaðir og aðrar yfirlýsingar. Lagt er til að einstaklingar sem hafa fengið útgefna kennitölu samkvæmt lögum um skráningu einstaklinga og lögaðilar sem skráðir eru með kennitölu í fyrirtækjaskrá eigi hver sitt pósthólf sem að jafnaði þeir einir hafa aðgang að. Markmið lagasetningarinnar er að auka gagnsæi, réttaröryggi og hagræði á mörgum sviðum samfélagsins, auk þess að styðja við frekari framþróun á stafrænni þjónustu fyrir almenning og þar með betri opinberri þjónustu og samskiptum almennings og hins opinbera.

13 umsagnir bárust um frumvarpsdrögin og er unnið að yfirferð þeirra í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira