Hoppa yfir valmynd
10. desember 2020 Innviðaráðuneytið

Sigurður Ingi ávarpaði alþjóðlegan fund samgönguráðherra um áhrif Covid-19 á samgöngur

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði fund alþjóðasamtaka samgönguráðherra (ITF). - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti í dag ávarp á fundi á vegum alþjóðasamtaka samgönguráðherra (ITF). Viðfangsefnin að þessu sinni voru áhrif Covid-19 faraldursins á samgöngur, hvernig þær séu tryggðar á meðan ástandið varir og ekki síst hvaða hlutverki þær muni gegna í endurreisn efnahagslífs eftir faraldurinn. Fundurinn er fyrsti stóri ráðherrafundur samtakanna sem haldinn hefur verið sem fjarfundur. 

Í ávarpi sínu fjallaði Sigurður Ingi um það hvernig tryggja megi að samgöngur rofni ekki þegar stór áföll ríða yfir og hvaða lærdóm megi draga af faraldrinum. Ráðherra sagði að í þessum efnum leiki hið opinbera mikilvægt hlutverk. Nauðsynlegt væri að skilgreina grunnþarfir og lágmarks þjónustustig samgöngukerfisins. Ríki og atvinnulíf verði í sameiningu að tryggja að slík þjónusta haldi. Kanna þurfi leiðir til að tryggja að þjóðhagslega mikilvæg starfsemi haldi velli og að lífvænleg fyrirtæki standi áfallið af sér, og tryggja þannig að þekking og reynsla tapist ekki.

Sigurður Ingi lýsti fyrir kollegum sínum áfallinu sem faraldurinn hafi valdið í samgöngum landsins, ekki síst í almenningssamgöngum og millilandaflugi. Það væri hins vegar óumdeilt að samgöngu- og vöruflutningakerfi landsins yrðu að virka áfram og að þau muni leika lykilhlutverk í endurreisn hagkerfisins eftir að faraldurinn er yfirstaðinn. 

Sigurður Ingi sagði að Íslendingar gætu hrósað happi yfir því að sterk staða ríkissjóðs í upphafi faraldursins hafi gert ríkinu kleift að taka á sig umtalsverðan kostnað við að halda samgöngukerfinu gangandi og tryggja lágmarks þjónustustig. Mikilvægt sé að til framtíðar verði litið til þess að ríkið viðhaldi sterkri stöðu ríkissjóðs og sveigjanleika til að tryggja þol innviða og opinberrar þjónustu í ófyrirséðum áföllum framtíðarinnar.

Fundurinn var vel sóttur, víða að úr heiminum en alls ávörpuðu 24 samgönguráðherrar fundinn. Alþjóðasamtök samgönguráðherra (ITF) eru stærstu alþjóðleg samtök innan OECD sem hafa það markmið að stuðla að samvinnu þjóða í málefnum samgangna. Samtökin standa að viðamiklum rannsóknum sem ætlað er að undirbyggja stefnumótun á öllum sviðum samgangna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum