Hoppa yfir valmynd
11. desember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Geðheilbrigðisþing 2020: Framtíðarsýn til 2030

Gildi sem þátttakendur á þinginu vilja hafa að leiðarljósi varðandi framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum - mynd

Á fjórða þúsund manns fylgdust með geðheilbrigðisþingi í beinu streymi þann 9. desember síðastliðinn. Margri tóku virkan þátt í þinginu í gegnum forritið slido og komu á framfæri spurningum og hugleiðingum. Augljóst er af áhuganum að dæma að umræðan um geðheilbrigðismál er þörf, vekur áhuga margra og fólk er reiðubúið að taka virkan þátt í mótun stefnu til framtíðar. Afrakstur af starfi vinnuhópa þar sem fram fór hugmyndavinna og mótun tillagna í þessum mikilvæga málaflokki verður birtur á næstunni til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. 

Hér er upptaka af geðheilbrigðisþingi https://vimeo.com/488121911

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á heilbrigðisþingi 2020Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra setti þingið og lagði í ávarpi sínu áherslu á að geðheilbrigðismálin eigi ekki og megi ekki vera jaðarsett í heilbrigðisþjónustunni: „vegna þess að þetta er málaflokkur sem sannarlega verðskuldar að vera í brennidepli, auðvitað alltaf en ekki síst núna á tímum covid. Það liggur líka fyrir að geðheilbrigðisvandi er í raun ein stærsta áskorun í heilbrigðismálum samtímans. Ekki bara hér á Íslandi heldur á heimsvísu.“

Ráðherra hvatti þátttakendur á þinginu áfram, því verkefnið krefðist samstöðu og samvinnu þar sem raddir allra þyrftu að heyrast, fagfólksins og ekki síður notenda þjónustunnar:

„Með gríðarlegri vinnu okkar allra höfum við komist á þann stað í dag að geðheilbrigðisþjónustan hefur verið stórefld til þess að mæta þörfum fólksins, samvinna innan og á milli kerfa hefur tekið stórstígum framförum og einhugur er meðal ráðherra í ríkisstjórninni að vinna saman að geðheilbrigðismálum. Geðheilbrigðismálin hafa þróast frá brotakenndri óreiðu í heildstæðari og skilvirkari mynd. „ Svandís sagði enn fremur: „Við höfum náð dýrmætum árangri á örfáum árum og það er ábyrgðarhluti að búa svo í haginn að við getum haldið áfram að ná góðum árangri.“

Heilbrigðisráðherra hvatti fólk til að hugsa stórt og vera óhrætt við að nýsköpun og frumlega hugsun.

„Hugsum til framtíðar. Hvernig viljum við hafa geðheilbrigðismál Íslands árið 2030? Hvaða gildi viljum við hafa að leiðarljósi? Hvað höfum við lært og hvernig ætlum við að nýta okkur það?“

„Ég vil leggja áherslu á áframhaldandi samtal og samráð. Áríðandi er að stjórnvöld hafi traust tengsl og samráð við fólk með eigin reynslu af geðrænum vanda, fagfólk og almenning.“  Ráðherra talaði um gott og gefandi samráð með notendum,  fulltrúum þjónustuveitenda, frjálsra félagasamtaka, heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisþjónustu á reglubundnum samráðsfundum.  Hún þakkaði einnig fyrir það tímabundna geðráð sem sett var á fót í mars og er enn að störfum til að samhæfa aðgerðir með frjálsum félagasamtökum vegna áhrifa heimsfaraldurs á geðheilsu. Ráðherra lagði áherslu á að halda áfram að þróa samráð til heilla fyrir okkur öll og ætlar að skoða hugmynd Geðhjálpar um formlegt og varanlegt geðráð.

Heilbrigðisráðherra telur að við þurfum að leggja meiri áherslu á geðrækt og forvarnir og gera geðrækt að eðlilegum og sjálfsögðum hluta af okkar menningu og samfélagi og þannig stuðla að betri geðheilsu þjóðarinnar.

Við þurfum að halda áfram að byggja upp og samþætta þjónustu vegna geðheilbrigðisvanda. Við þurfum að sjá til þess að fólk fái rétta þjónustu á réttum stað. Við þurfum að halda áfram að vinna að því að jafna aðgengi að þjónustu, draga úr hindrunum. Við þurfum að leggja áherslu á gagnreynda og þverfaglega nálgun að geðheilbrigðismálum.  Við þurfum að gera hvað við getum til að styðja við góða geðheilsu allra í landinu.“

Síðan talaði ráðherra um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem lítil eyja með takmarkað framboð af sérfræðingum. Hún lagði áherslu á að nýta þekkingu í heilbrigðisvísindum og miðla henni á skilvirkari hátt og nýta sérfræðinga betur á landsvísu, t.d. með aukinni áherslu á teymisvinnu. Hún hvatti einnig til þess að nýta fjartæknina í ríkara mæli og hugsa á skapandi hátt til að finna lausnir framtíðarinnar.

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, brýndi áhorfendur að rýna til gagns í geðheilbrigðismálum og hvatti meðal annars til þess að það yrði gerð heildarúttekt á hugmyndafræði, umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.  „Það er mikið ósamræmi í umfangi málaflokksins og þeirra fjármuna sem til hans er varið og það verður einhvern veginn að fara að vinna að því að brúa þetta bil.“

Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá embætti landlæknis fjallaði um geðheilbrigði út frá lýðheilsusjónarmiðum, um mikilvægi geðræktar, forvarna og snemmtæk stuðnings. „Snemmtæk íhlutun er eitthvað sem við þurfum virkilega að taka til endurskoðunar frá grunni hér á Íslandi“ í ljósi þess að bið er alls staðar eftir þjónustu.

Karen Geirsdóttir, formaður Hugrúnar geðfræðslufélags, fjallaði um mikilvægi þess að nýta geðfræðslu til þess að efla geðheilbrigði. En Hugrún ferðast um land allt til að halda geðfræðslufyrirlestra í framhaldsskólum. „Það er mikilvægt að veita þessa þjónustu fyrir unga fólkið og sýna þeim hvað stendur til boða.“

Bóas Valdórsson, sálfræðingur Menntaskólans við Harmahlíð talaði um mikilvægi sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Hann vísaði til forvarnargildis og með því að hafa lágan þröskuld fyrir þjónustu væri hægt að draga úr líkum á því að fólk þróaði með sér frekari vanda „og er það bæði til heilla fyrir persónuna og einstaklingana sjálfa sem og dregur úr auknu álagi annarsstaðar í heilbrigðiskerfinu.“

Fulltrúar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ingólfur Sveinn Ingólfsson, yfirlæknir í Geðheilsuteymi Vestur og Kristbjörg Þórisdóttir sálfræðingur, útskýrðu hvernig þau sjá fyrir sér framtíðina í þrepaskiptri geðheilsugæslu með forystu til árangurs. „Við viljum að sjálfsögðu horfa til þess að geðheilsugæsla framtíðarinnar sé í raun í takt við það sem við myndum vilja bjóða okkar eigin börnum,“ sagði Kristbjörg. „Það má líka hugsa til þess að þessi geðheilsugæsla muni vaxa og dafna eins og börnin okkar.“ Þau lögðu töluðu um hversu áríðandi það væri að veita rétta þjónustu á réttum stað, hafa virka notendur og teymisvinnu. „Það er þekkt hérlendis sem erlendis að á hverjum tíma séu 10-20% að glíma við misalvarlegan geðvanda. Það gera um 28-56.000 Íslendinga. Þetta eru háar tölur,“ sagði Ingólfur. Hann benti á að „í dag er mönnun í fyrstu línu geðheilbrigðisþjónustu ekki næg til þess að veita svona fjölda þjónustu og því viljum við breyta. Númer eitt, tvö og þrjú. Það er aðalboðskapurinn okkar í dag.“ Þau komu með áhugaverð dæmi um hvernig hægt væri að nýta fjórðu iðnbyltinguna til þess að bæta þjónustu, gera hana skilvirkari og koma í veg fyrir biðlista.  En til þess að veita bestu þjónustu sem mögulegt er þarf að hlúa að mannauði og setja fólkið í forgrunninn, benti Kristbjörg á.

Berglind Guðmundsdóttir, yfirsálfræðingur á Landspítala talaði um að setja notandann í öndvegi því að grundvallarforsenda þess að ná árangri í bata er að fólk séu virkir þátttakendur í eigin gagnreyndri meðferð. Hún benti einnig á nauðsyn þess að aðgengi fólks sé jafnt að þjónustu og að samfella og samhæfing sé á milli þjónustustiga. „Ég tel afar mikilvægt að við séum með vegvísa og heildarsýn en á sama tíma að við séum dugleg að brjóta niður verkefnið og skilgreina hvern þátt vel svo að við séum líklegri til að ná árangri. Ég fagna því innilega að þetta þing er í gangi núna og ég hef mikla trú á niðurstöðu þess. Ég trúi því að saman getum við á Íslandi, okkar litla landi, búið til geðheilbrigðisstefnu og mótað hana til framtíðar og ég hef mikla trú á því að hún geti orðið framúrskarandi og fyrirmynd annarra þjóða

Þá tók til máls Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara sem setti geðheilbrigðismálin í fallegt samhengi „Ég get ekki bara hugsað málið út frá eldri borgurum vegna þess að mér finnst að þetta líf okkar sé ein samfella.“ Erindi hennar, Með hnút í maganum, lagði áherslu á stóra samhengið, „hniprum við okkur saman með þennan hnút eða vinnum við úr honum?“ Hún hvatti til sjálfboðaliðastarfa, heilbrigðs lífs  og jafningjastuðnings.

Erindi Málfríðar Hrefnu Einarsdóttur, formanns Hugarafls, fjallaði um innsæið sem kom af eigin reynslu og var hvatinn að valdeflandi, batahvetjandi og einstaklingsmiðaðri nálgun hennar að starfi sínu nú. „Þessum mannlegu áherslum sem ættu í raun að sjást í allri geðheilbrigðisþjónustu.“

Pallborðsumræður voru líflegar og gagnlegar. Þrátt fyrir ólík sjónarhorn þá var tær samhljómur í erindum fyrirlesara og spurningum áhorfenda: Geðheilbrigðismál hafa tekið miklum framförum á síðustu árum, fólk er sammála um mikilvægi heildarsýnar í málaflokknum og skilvirkrar samvinnu, einhugur er með að halda áfram samstíga á framfarabraut og tileinka sér verkfæri fjórðu iðnbyltingarinnar og vilji allra er til að þátttaka notenda verði öflugri þáttur í geðheilbrigðiskerfinu.

Skýrt kom fram að ein helsta ógnin við þessa framtíðarsýn er uppbrot málaflokksins, að forvarnir og heilbrigðisþjónustustigin og notendur vinni ekki í takt og að ekki sé nægilegt samráð á milli hlutaðeigandi.

Strax í kjölfar geðheilbrigðisþingsins fóru fram sjö vinnustofur í sérstökum rafrænum fundarrýmum, en vinnustofurnar endurspegluðu eitt af lykilviðfangsefnunum sjö úr heilbrigðistefnunni. Á vinnustofunum unnu þátttakendur að framtíðarsýn með forgangsröðum aðgerðum til þess að ná þessari framtíðarsýn. Hópstjórar munu senda niðurstöður vinnunnar til heilbrigðisráðuneytisins.

Heilbrigðisráðuneytið mun vinna úr afrakstri vinnustofanna og leggja fram drög að framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem verður kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Í lok opnunarávarps síns sagði heilbrigðisráðherra: „Ég vil að lokum hvetja ykkur til að nýta ykkur þessi tækifæri til þess að hafa áhrif á mótun okkar sameiginlegu framtíðarsýnar í geðheilbrigðismálum.“

  • Geðheilbrigðisþing 2020: Framtíðarsýn til 2030 - mynd úr myndasafni númer 1
  • Geðheilbrigðisþing 2020: Framtíðarsýn til 2030 - mynd úr myndasafni númer 2
  • Geðheilbrigðisþing 2020: Framtíðarsýn til 2030 - mynd úr myndasafni númer 3
  • Geðheilbrigðisþing 2020: Framtíðarsýn til 2030 - mynd úr myndasafni númer 4
  • Geðheilbrigðisþing 2020: Framtíðarsýn til 2030 - mynd úr myndasafni númer 5
  • Geðheilbrigðisþing 2020: Framtíðarsýn til 2030 - mynd úr myndasafni númer 6
  • Geðheilbrigðisþing 2020: Framtíðarsýn til 2030 - mynd úr myndasafni númer 7
  • Geðheilbrigðisþing 2020: Framtíðarsýn til 2030 - mynd úr myndasafni númer 8

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum