Hoppa yfir valmynd
14. desember 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnuleysisbætur hækka

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur undirritað reglugerð sem kveður á um hækkun fjárhæða atvinnuleysistrygginga og tekur reglugerðin gildi 1. janúar 2021.

Óskertar grunnatvinnuleysisbætur hækka um 3,6% en ríkisstjórnin hefur jafnframt ákveðið að greiða sérstakt viðbótarálag á grunnbætur atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2021 vegna áhrifa Covid-19 faraldursins. Álagið hljóðar upp á 2,5% og kemur til viðbótar áðurnefndri hækkun. Nemur heildarhækkunin því 6,1% og verða óskertar grunnatvinnuleysisbætur þannig 307.403 kr. á mánuði á árinu 2021. Þá verður hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta 472.835 kr. á mánuði miðað við óskerta atvinnuleysistryggingu.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Frá því að Covid-19 faraldurinn hófst höfum við gripið til fjölbreyttra og markvissra aðgerða og nú erum við að hækka bæði tekjutengdar atvinnuleysisbætur og grunnbæturnar. Við vitum að næstu misseri verða krefjandi á ýmsum vígstöðvum en við erum farin að sjá ljósið við enda ganganna og ég er sannfærður um að viðspyrnan verður skörp þegar á næsta ári.”

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum