Hoppa yfir valmynd
15. desember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Breytingar áformaðar á lögum um réttindi sjúklinga til að draga úr nauðung

Birt hafa verið til umsagnar drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum um réttindi sjúklinga. Markmið áformaðrar lagabreytingar er að draga úr nauðung í heilbrigðisþjónustu með ráðstöfunum sem tryggja betur réttindi sjúklinga. Samkvæmt frumvarpinu verður öll nauðung bönnuð nema í skilgreindum undantekningartilvikum samkvæmt lögunum eða ef um neyðartilvik er að ræða. Heilbrigðisstofnanir og starfsmenn þeirra skulu því forðast að grípa til ráðstafana sem fela í sér nauðung gagnvart sjúklingum nema brýn nauðsyn krefji og þá í samræmi við fyrirmæli laga.

Frumvarpið er liður í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við athugasemdum sem umboðsmaður Alþingis gerði í kjölfar eftirlitsheimsóknar hans á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítala á Kleppi í október 2018. Eftirlitsheimsóknin fór fram á grundvelli svonefnds OPCAT-eftirlits sem felst í óháðum eftirlitsheimsóknum umboðsmanns á staði þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja. Í skýrslu umboðsmanns vegna heimsóknarinnar kemur fram að verulega skorti á fullnægjandi heimildir og umbúnað í núgildandi lögum vegna þeirra inngripa, þvingana og valdbeitingar sem stjórnendur lokaðra deilda á geðsviði Landspítalans telja nauðsynlegt að geta viðhaft gagnvart þeim sjúklingum sem þar dvelja.

Með frumvarpinu er ekki ætlunin að auka heimildir til þvingunar né inngripa á heilbrigðisstofnunum miðað við gildandi framkvæmd, heldur einungis að tryggja fullnægjandi lagaheimildir fyrir þeim inngripum sem talið er nauðsynlegt að beita í undantekningartilvikum ásamt því að tryggja réttindi sjúklinga, s.s. með rétti til endurskoðunar ákvarðana og eftirliti með beitingu þvingana.

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira