Hoppa yfir valmynd
15. desember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Samningur um rekstur Öldrunarheimila Akureyrar framlengdur

Akureyri - myndStjórnarráðið

Undirritaður hefur verið samningur milli Akureyrarbæjar og Sjúkratrygginga Íslands um framlengingu á rekstri bæjarins á Öldrunarheimilum Akureyrar til loka apríl á næsta ári og hefur heilbrigðisráðherra staðfest samninginn.

Eins og fram kemur í tilkynningu á vef Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) hafa Öldrunarheimili Akureyrar (ÖA) og SÍ sinnt nýsköpun í þjónustu við aldraða, m.a. á grundvelli samnings um sveigjanlega dagdvöl sem undirritaður var sumarið 2019. Á framlengingartíma samningsins munu Akureyrarbær og ÖA vinna áætlun um samþættingu þjónustu við aldraða á Akureyri. Stefnt skal að því að ÖA hafi með höndum heildarskipulag þjónustu við þá einstaklinga sem komnir eru með færni- og heilsumat með samþættingu heimahjúkrunar, dagdvalar og hvíldarinnlagna. Markmið slíkrar samþættingar er aukin samfella í þjónustunni og aukin gæði, auk þess að styðja aldraða með færni- og heilsumat til að geta búið sem lengst í heimahúsi. Þá skal áætlunin um samþættingu þjónustunnar einnig miða að því að ná fram hagræðingu í rekstri.

Áætlunin verður nýtt við þá endurskoðun á rekstri hjúkrunarheimila sem þegar er unnið að á vegum heilbrigðisráðuneytis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum