Hoppa yfir valmynd
16. desember 2020 Forsætisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Lokauppgjör um sanngirnisbætur samþykkt

Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um sanngirnisbætur til fólks sem á barnsaldri sætti misgjörðum á stofnunum fyrir fötluð börn varð að lögum í dag.

Með frumvarpinu er unnt að ljúka bótauppgjöri vegna fatlaðs fólks sem var vistað á barnsaldri á stofnunum sem hið opinbera bar ábyrgð á en slíkt hefur þegar verið gert hvað varðar vistun á Kópavogshæli.

Með samþykktinni er mögulegt að ljúka samfélagslegu uppgjöri vegna þeirra stofnana sem fötluð börn voru vistuð á árum áður á einfaldari hátt en gert hefur verið. Það getur orðið til verulegra hagsbóta fyrir þessa einstaklinga þar sem unnt er að skoða og afgreiða mál þeirra á mun skemmri tíma en til þessa. Þá er með því gætt jafnræðis milli fatlaðs fólks sem var vistað á barnsaldri á Kópavogshæli annars vegar og hins vegar á öðrum sambærilegum stofnunum fyrir fötluð börn. 

Áætlaður kostnaður við verkefnið er 414 til 469 milljónir króna en talið er að bæturnar taki til 80 til 90 einstaklinga.

Katrín Jakobsdóttir: „Ég tel að með því að flytja þetta frumvarp sýni ríkisstjórnin í verki að hún taki alvarlega það sem fram hefur komið í umræðum og skýrslum vistheimilanefndar að víða hafi verið pottur brotinn í aðbúnaði, umönnun og velferð fatlaðra barna sem vistuð voru á stofnunum á árum áður. Þessu frumvarpi er ætlað að ljúka með sómasamlegum hætti uppgjöri sanngirnisbóta til þeirra sem voru vistuð á barnsaldri á stofnunum fyrir fötluð börn og þar með eins og frekast er unnt samfélagslegu uppgjöri vegna þessa.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum