Hoppa yfir valmynd
16. desember 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra skipar starfshóp um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skipað starfshóp um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum sem hefur það hlutverk að vinna tillögu að stefnu stjórnvalda um málið.

Er stefnunni ætlað að vera grundvöllur að gerð heildstæðrar áætlunar um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum. Við vinnuna á starfshópurinn m.a. að horfa til skýrslu loftslagsráðs „Að búa sig undir breyttan heim“sem kom út í byrjun þessa árs, vísindaskýrslur um afleiðingar loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag og náttúru og stefnumótun og aðgerðir nágrannaríkja Íslands varðandi aðlögun að loftslagsbreytingum.  

„Aðalverkefni sérhvers ríkis í loftslagsmálum er að draga úr losun. Það er númer eitt, tvö og þrjú. En við verðum samt sem áður líka að undirbúa okkur undir þær náttúrufarslegu og samfélagslegu breytingar sem óhjákvæmilega munu verða vegna loftslagsbreytinga. Þetta er upphafið á þeirri vegferð fyrir Ísland og byggir á undirbúningsvinnu Veðurstofu Íslands í samstarfi við fjölmarga aðila og Loftslagsráðs sem átt hefur sér stað á undanförnum misserum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Þá er hópnum gert að hafa samráð við fulltrúa félagasamtaka á sviði umhverfismála, hagsmunasamtök atvinnulífs og vinnumarkaðar, sem og þær stofnanir sem sinna málum tengdum aðlögun að loftslagsvá.

Skipun starfshópsins er fyrsta skrefið í vinnu við gerð áætlunar íslensks samfélags að loftslagsbreytingum og hefur Halla Sigrún Sigurðardóttir, skrifstofustjóri loftslagsskrifstofu í umhverfis- og auðlindaráðuneyti verið skipuð formaður hópsins.

Að auki sitja í starfshópnum fulltrúar frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra,  Veðurstofu Íslands, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hafrannsóknastofnun,  forsætisráðuneyti,  Skipulagsstofnun, Háskóla Íslands og  sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

Starfsmaður hópsins er Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofu Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum