Hoppa yfir valmynd
16. desember 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstöfunartekjur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega aukast

Alþingi hefur samþykkt frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, þar sem dregið er úr áhrifum tekjutryggingar örorku- og endur­hæf­ing­ar­lífeyrisþega á útreikning sérstakrar upp­bótar vegna framfærslu. Með nýju lögunum telst einungis 95% af fjár­­hæð tekjutryggingar til tekna lífeyrisþega í stað 100% nú.

Ráðstöfunartekjur þeirra örorku- og endur­hæf­ingar­líf­eyris­­þega sem fá uppbótina greidda munu aukast umtalsvert og mun meðalfjárhæð uppbótarinnar hækka mest hjá tekjulægsta hópnum. Tekjulægstu örorku- og endur­hæfingar­lífeyris­þegarnir munu þannig fá 7.980 króna hækkun á mánuði umfram þá 3,6% almennu hækk­un á bótum almanna­trygg­inga sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021. Heildar­hækkun bóta almanna­trygginga og félagslegrar aðstoðar til tekjulægstu lífeyrisþeganna verður því um 19.700 krónur á mánuði, eða sem nemur 6,1% hækkun um næstu áramót. Meðalhækkun til allra lífeyrisþega verður tæplega 7.000 krónur á mánuði.

24.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar fá eingreiðslu

Örorku og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa á yfirstandandi ári átt rétt á greiðslu ör­orku­lífeyris, slysaörorkulífeyris eða endurhæfingarlífeyris fá greidda eingreiðslu í desember sem nemur 50.000 krónum. Alls fá 24.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar eingreiðsluna.

Þeir sem hafa fengið greiðslur frá Tryggingastofnun alla mánuði ársins fá fulla greiðslu en fjárhæð eingreiðslunnar til þeirra sem hafa fengið greiðslur hluta úr ári verði í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða ársins sem viðkom­andi hefur átt rétt á greiðslum. Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem nú ríkja vegna Covid-19 heimsfaraldursins verður eingreiðslan skattfrjáls og mun hún því ekki leiða til skerðingar á öðrum greiðslum.

Trygg­ingastofnun ríkisins hefur þegar innt greiðsluna af hendi

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Með þessum aðgerðum erum við að bæta kjör tekjulægsta hóps örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og tryggja að þeir sem engar aðrar tekjur hafa en bætur almannatrygginga fái umtalsverða kjarabót. Þannig eru tekjulægstu hóparnir að fá hækkun upp á tæpar 20.000 krónur á mánuði, og við lögðum einnig mikla áherslu á að eingreiðslan sem þessir hópar fá núna í desember verði skattfrjáls og muni ekki skerða aðrar greiðslur.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum