Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

COVID 19: Forgangsröðun við bólusetningu þegar fyrstu skammtar bóluefnis berast

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneyti

Sóttvarnalæknir hefur í samráði við heilbrigðisráðherra ákveðið hvaða hópar munu njóta forgangs við bólusetningu við COVID-19 þegar fyrstu skammtar bóluefnis berast til landsins. Þetta er í samræmi við reglugerð þar að lútandi sem heimilar sóttvarnalækni að víkja frá forgangsröðun reglugerðarinnar telji hann það nauðsynlegt og skal hann þá tilkynna það ráðherra með rökstuðningi.

Strax eftir jól er fyrirhugað að hefja bólusetningu hjá framlínustarfsmönnum í heilbrigðisþjónustunni sem eru rúmlega 1.000 manns. Jafnframt verður hafin bólusetning hjá íbúum á hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum sem eru 3.000-4.000 manns. Þegar næsta sending kemur í janúar/febrúar á næsta ári verður haldið áfram með bólusetningu hjá elstu aldurshópunum.

Líkt og fjallað er um í reglugerð nr. 1198/2020 um bólusetningu gegn COVID-19 ber sóttvarnalæknir ábyrgð á skipulagningu og samræmingu bólusetningar, svo sem hvaða bóluefni er notað og fyrir hvaða hópa.

Heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir eiga náið samstarf um sóttvarnaráðstafanir og undirbúning bólusetninga. Ákvörðun sóttvarnalæknis um forgangsröðun sem hann greindi frá á upplýsingafundi almannavarna í dag og fram kemur í tilkynningu á vef embættis landlæknis er tekin að höfðu samráði við ráðherra og í samræmi við reglugerð þar að lútandi.

Stöndum vörð um aldraða

„Við stöndum á tímamótum í baráttunni við faraldurinn þar sem bólusetningar eru að hefjast. Við vitum að aldraðir eru viðkvæmastir allra fyrir COVID-19 og það er sá hópur sem mest ríður á að verja. Það gerum við nú sem fyrr“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Dreifingaráætlanir bóluefnaframleiðanda verða kynntar eftir því sem fram vindur

Heilbrigðisráðuneytið kynnti í dag myndrænt yfirlit um stöðu samninga um bóluefni vegna COVID-19. Þar eru birtar áætlanir framleiðenda um afhendingu bóluefna, magn og tímasetningar, eftir því sem þær liggja fyrir. Vert er að benda á að þær áætlanir eru ekki fyrirliggjandi enn hjá öllum framleiðendunum. Upplýsingar hvað þetta varðar verða uppfærðar jafnóðum og þær berast.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum