Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Viðspyrnustyrkir lögfestir og stuðningslán framlengd

Tvö frumvörp fjármála- og efnahagsráðherra um stuðning vegna efnahagslegra áhrifa Covid-19 voru samþykkt á Alþingi í gær. Samþykkt voru lög um nýtt styrkjaúrræði, viðspyrnustyrki og gildistími stuðningslána var framlengdur um fimm mánuði eða til 31. maí 2021.

Viðspyrnustyrkir koma til móts við vanda rekstraraðila og er þeim ætlað að gera samfélagið betur viðbúið því þegar heimurinn opnast að nýju. Styrkirnir eru beint framhald af tekjufallsstyrkjum og er þeim ætlað að aðstoða fyrirtæki við að viðhalda lágmarksstarfsemi meðan áhrifa faraldursins gætir.

Úrræðið tekur til allra tekjuskattskyldra rekstraraðila sem verða fyrir a.m.k. 60% tekjufalli vegna heimsfaraldursins frá nóvember 2020 til og með maí 2021. Það gildir um alla rekstraraðila óháð rekstrarformi og gildir þannig líka um einyrkja sem stunda atvinnurekstur á eigin kennitölu. Fjárhæð styrksins er 90% af rekstrarkostnaði rekstraraðila þann mánuð sem umsóknin varðar.

Fyrir rekstraraðila með tekjufall á bilinu 60-80%

  • Viðspyrnustyrkur getur orðið 400 þúsund kr. á hvert mánaðarlegt stöðugildi
  • Getur hæstur orðið 2 milljónir króna

Fyrir rekstraraðila með tekjufall upp á 80%-100%

  • Viðspyrnustyrkur getur orðið 500 þúsund kr. á hvert mánaðarlegt stöðugildi
  • Getur hæstur orðið 2,5 milljónir króna. 

Heimilt er að miða fjölda stöðugilda við sama mánuð á árinu 2019.

Skatturinn mun taka á móti umsóknum um viðspyrnustyrki. Unnið er að útfærslu á rafrænu umsóknarkerfi um styrkina sem verður kynnt í janúar 2021.

Þá var samþykkt á Alþingi að framlengja umsóknarfrest um stuðningslán um fimm mánuði eða til 31. maí 2021. Lánin eru ætluð litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli í kjölfar Covid-19, en um 1200 umsóknir hafa þegar borist um lánin og um 940 lán verið veitt. Stuðningslán getur numið allt að 10% af tekjum fyrirtækis á rekstrarárinu 2019 en lán til hvers fyrirtækis getur að hámarki numið 40 m.kr. Full ríkisábyrgð er veitt upp að 10 m.kr. og 85% ríkisábyrgð umfram það, en markmiðið er að tryggja að stuðningslán verði veitt á lágmarksvöxtum.

Sótt er um stuðningslánin á Ísland.is 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum