Hoppa yfir valmynd
18. desember 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

ESA samþykkir fjórar aðgerðir sem tengjast áhrifum Covid-19

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tók í vikunni fjórar ákvarðanir sem varða ráðstafanir íslenskra stjórnvalda í tengslum við áhrif Covid-19 en stofnunin lagði mat á hvort aðgerðirnar samrýmist ákvæðum EES-samningsins um ríkisaðstoð.

Stuðningsaðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins skiptast í nokkra flokka að því er varðar ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins:

Aðgerðir sem taka til allra fyrirtækja, á borð við frestun gjalddaga og niðurgreiðslu launakostnaðar, teljast almennar aðgerðir sem ekki ívilna tilteknum fyrirtækjum. Þær fela því ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi reglnanna.

Stuðningur sem er undir tilteknu hámarki fyrir hvert fyrirtæki, svonefnd minniháttaraðstoð, telst ekki til ríkisaðstoðar samkvæmt EES-samningnum. Slíkur stuðningur er því ekki háður samþykki ESA, séu tiltekin formskilyrði uppfyllt. Hér undir falla m.a. stuðningslán og lokunarstyrkir.

Ráðstafanir sem ætlað er að koma til móts við fyrirtæki og atvinnugreinar sem líða fyrir skertan aðgang að lausafé vegna faraldursins teljast samrýmanlegar EES-samningnum, að fengnu samþykki ESA, í samræmi við tímabundinn ramma um beitingu ríkisaðstoðar til að stemma stigum við röskun efnahagslífs í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Þetta á m.a. við um Ferðaábyrgðarsjóð, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og ferðagjöfina.

Loks er ríkisaðstoð sem takmarkast við það tjón sem fyrirtæki verða fyrir vegna faraldursins samrýmanleg EES-samningnum að tilteknum skilyrðum uppfylltum og að fengnu samþykki ESA. Hér undir fellur stuðningur við Icelandair, Isavia og Hörpu.

Sérstök vefsíða vegna ríkisaðstoðar og Covid-19 var sett í loftið af hálfu ESA í mars á þessu ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum